Tóbaksverð og vísitala

Fimmtudaginn 17. október 1996, kl. 17:06:22 (470)

1996-10-17 17:06:22# 121. lþ. 10.11 fundur 82. mál: #A tóbaksverð og vísitala# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur

[17:06]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Það má vel vera að málskilningur minn og hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur renni ekki alveg í sama farvegi. Ég kalla það ekki samráð þegar ÁTVR fær bréf frá tóbaksvarnanefnd og líka frá heilbrrn. og ég efa að ÁTVR hafi lesið bréfið. A.m.k. fullyrði ég það hér að ekki var tekið tillit til neinna atriða sem komu fram í bréfi tóbaksvarnanefndar. Það kalla ég ekki samráð og þess vegna segi ég að í besta falli er hægt að segja að lögfræðilega sé ráðuneytið á gráu svæði.

Hins vegar, herra forseti, vek ég athygli á því að auðvitað er talsvert merkilegt þegar hv. þm. Siv Friðleifsdóttir, sem er einn af ötulustu talsmönnum stjórnarliðsins, kemur upp og ásakar hæstv. fjmrh. um að hafa beitt sér fyrir aðgerðum sem hv. þm. segir að muni leiða til stórfelldrar aukningar á reykingum ungra Íslendinga. Getur hæstv. heilbrrh. staðið undir þessu? Verður hún ekki að taka á þessu máli, svara þessari áskorun hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur og snúa hæstv. fjmrh. niður í þessu máli? Henni ber það. Henni ber að standa vörð um heilbrigði okkar, ekki síst ungra Íslendinga og það hefur komið fram hver skilningur stjórnarliðsins er á þessu máli.