Tóbaksverð og vísitala

Fimmtudaginn 17. október 1996, kl. 17:07:40 (471)

1996-10-17 17:07:40# 121. lþ. 10.11 fundur 82. mál: #A tóbaksverð og vísitala# þál., SF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur

[17:07]

Siv Friðleifsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Að sjálfsögðu slæ ég í borðið þegar mér þykir líklegt að það verði um auknar reykingar að ræða hjá unglingum þegar nýjar tegundir koma á markaðinn. Það er skylda mín sem varaformanns heilbr.- og trn. að gera það. Ég hef ákveðnum skyldum að gegna í því sambandi, í forvörnum. Ég verð að sjálfsögðu að hafa ákveðna sannfæringu fyrir því að við séum að fara rétta leið og þá sannfæringu hef ég ekki nú sem stendur. Ef við verðum að hlýða þessum reglum, þá er verið að beygja okkur undir þau lög og þá má vel vera að það verði að gera það. En vegna forvarnasjónarmiða er ég andsnúin þessum reglum og þess vegna slæ ég í borðið og vil fá frekari rök.