Tóbaksverð og vísitala

Fimmtudaginn 17. október 1996, kl. 17:09:45 (473)

1996-10-17 17:09:45# 121. lþ. 10.11 fundur 82. mál: #A tóbaksverð og vísitala# þál., SvG
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur

[17:09]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Sem einn af meðflutningsmönnum þessarar tillögu langar mig aðeins til að leggja orð í belg og fyrst varðandi tillöguna sjálfa.

Það er þekkt umræðuefni að við Íslendingar erum háðari vísitölubindingum en nokkur önnur þjóð. Það er engin þjóð í heiminum sem býr við vísitölubindingar í sínu efnahagslífi eins og Íslendingar gera. Það hafa verið sett um það lög í öðrum löndum, ég man eftir því t.d í Finnlandi fyrir nokkrum árum, að það var algerlega bannað að binda allt við vísitölu og það hefur færst í vöxt hér á landi að stjórnvöld, m.a. núv. ríkisstjórn og síðasta ríkisstjórn, beiti sér fyrir því að allar sjálfvirkar breytingar í fjárlögum voru strikaðar út. Eftir sem áður stendur uppi sá veruleiki að mjög stórar stærðir í okkar efnahagsmálum sem eru verulegur hluti af skuldum landsmanna, breytast eftir vísitölu. Það er nokkuð alvarlegt umhugsunarefni sem gerir það að verkum að ýmsir þættir eins og t.d. þeir sem hér eru nefndir eru þannig að það er mjög erfitt að hugsa sér að hækka sérstaklega verð á tóbaki við óbreyttar aðstæður. Það þarf að gera eitthvað sérstakt til. Þess vegna er flutt þessi tillaga, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að skipa nefnd til að semja frumvarp til laga sem miði að því að slitin verði tengsl tóbaksverðs og vísitölu sem notuð er um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár.

Stefnt skal að því að leggja slíkt frumvarp fram í upphafi næsta þings og verði gildistaka miðuð við 1. janúar 1998.``

Ég segi fyrir mitt leyti, hæstv. forseti, að ég tel að það sé tiltölulega einfalt mál að semja þetta frv. Ég tel að ef þetta frv. verður á annað borð samið þá hljóti það að líta þannig út að þar verði í fyrsta lagi kveðið á um sérstakt skref, verulegt skref til hækkunar tóbaks, t.d. um 50% eða eitthvað því um líkt og jafnframt standi í þeim lögum --- eða hver sem sú tala verður, hækkunartalan verður. Hún getur verið 40, 50, 60 eða hvað sem er --- og jafnframt standi í þeim lögum að þær breytingar sem sú hækkun á tóbaki sem þarna er kveðið á um kann að hafa í för með sér á vísitölum sparifjár og lánsfjár, skuli ekki hækka skuldastofn, þannig að það sé beinlínis tekið fram í sömu lögunum að það sé ákveðið að hækka tóbakið og það sé ákveðið að taka þetta út úr vísitölu í þetta eina skipti. Síðan mundi þessi vísitala ganga áfram að öðru leyti. Ég held að það sé alveg rétt sem hæstv. fjmrh. sagði áðan að það er ekki hægt að afgreiða svona mál þannig að stjórnvöld geti stundum haft uppi vísitölu og stundum ekki vegna þess að þeir sem við Íslendingar skiptum við á alþjóðlegum fjármagnsmarkaði, útlendingar af ýmsu tagi, horfa auðvitað á það hvernig við förum með svona mál og það er ekki traustvekjandi ef við værum að rokka með þessa hluti til og frá. Þess vegna er einfaldast að gera svona lagað í eitt skipti fyrir öll með ákveðinni breytingu eins og þeirri sem hér er verið að tala um, t.d. að hækka verðið mjög verulega í einu skrefi.

Þá kemur aftur að spurningunni hvort rétt sé að gera það. Mitt svar er svo sem ekki neitt í þeim efnum, en svar allra sem þekkja til, sérfræðinga af öllu tagi er: Já. Það á að hækka sérstaklega tóbakið. Við fórum af stað á árunum 1980--1983 með mikið átak í tóbaksverndarmálum. Þá var stofnuð tóbaksvarnaefnd undir forustu hv. þm. Árna Johnsens sem er mjög kunnur af mörgu góðu eins og kunnugt er og nú hefur lagt að fótum sér Sinfóníuhljómsveit Íslands. (Gripið fram í.) Ég sá það nú ekki enda sný ég þannig að hæstv. forseta sem betur fer. Þessi nefnd náði mjög miklum árangri, þessi tóbaksvarnanefnd sem var undir forustu hv. þm. Árna Johnsens og það var þannig að áróður gegn tóbaksnotkun í skólum og víðar og víðar skilaði miklum árangri og neyslutölur tóbaks féllu verulega hratt í landinu fyrstu árin eftir að þetta gerðist. Nú er það hætt að gerast. Það er alveg greinilegt að það er komið þarna að ákveðinni klöpp sem virðist ekki vera hægt að vinna á nema með sérstökum ráðstöfunum. Þá er spurning hvort ekki er skynsamlegt að gera það eins og sem hér er lagt til og hv. þm. Þuríður Backman hefur haft forustu um að flytja tillögu um núna og ég hygg að hafi áður verið flutt frv. þar sem á þessu máli var sérstaklega tekið. Ég vil þess vegna segja að ég tel að hér sé hreyft stóru máli og í sjálfu sér ætti að vera hægt að afgreiða það.

Spurningin er: Hvað segir hæstv. heilbrrh. um málið? Heilbrrh. á úr vöndu að ráða. Heilbrrh. er yfirmaður málaflokksins, tóbaksvarna, en að hinu leytinu til er fjmrh. sem telur sig hafa skyldur við að gæta ákveðinna reglna varðandi viðskipti og skattheimtu o.fl. Spurningin er þessi: Hvaða stuðning, hvaða hjálp vill hæstv. heilbrrh. fá til þess að geta beitt þeim úrræðum sem þarf í þessu máli, þ.e. í þá veru að hækka verulega verð á tóbaki? Hvað telur hún nauðsynlegt að gera í þessu efni? Ég er sannfærður um það að miðað við þau viðhorf sem fram hafa komið í þessari stofnun í dag, þá er vilji til þess á Alþingi að veita hæstv. heilbrrh. þau tæki sem hún þarf að beita til að unnt sé að hækka verulega verð á tóbaki.

[17:15]

Hitt málið, hæstv. forseti, sem hefur verið rætt dálítið í sambandi við vinnubrögð fjmrn. er algert hneyksli. Það er útilokað annað en hv. heilbr.- og trn. taki á þessu máli og ég heyrði ekki betur en hæstv. fjmrh. tæki því ekkert illa og varaformaður heilbrn. er tilbúin að taka sérstaklega á því máli eins og fram kom í hennar ræðu áðan. Ég held að það fyrsta sem nefndin ætti að gera og ég sting því að í þessari umræðu sérstaklega af því að hér situr ekki langt frá mér hv. formaður heilbr.- og trn. hvort ekki ætti að fara fram á lagalega úttekt Lagastofnunar Háskólans á því hvort óhjákvæmilegt sé að gefa út þennan nýja lista. Út af fyrir sig skal ég ekkert um það segja. Það getur vel verið að það sé óhjákvæmilegt miðað við óbreytt lög að gefa út þennan nýja lista en mér finnst að það eigi ekki að styðjast við einhver munnleg meðmæli embættismanna í fjmrn., með fullri virðingu fyrir þeim, heldur eigi að afla lagalegra greinargerða frá þeim aðilum sem helst þekkja til þeirra mála. Í þeim efnum mæli ég með Lagastofnun Háskólans og hún verði beðin um úttekt. Jafnframt beini ég þeirri ákvörðun til hæstv. heilbrrh. að hún sjái til þess að nýi listinn taki ekki gildi fyrr en niðurstaða greinargerðar lægi fyrir og niðurstaða heilbrn. Alþingis liggi fyrir í þessu máli.