Tóbaksverð og vísitala

Fimmtudaginn 17. október 1996, kl. 17:41:17 (481)

1996-10-17 17:41:17# 121. lþ. 10.11 fundur 82. mál: #A tóbaksverð og vísitala# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur

[17:41]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Það er alltaf dapurlegt þegar ungir þingmenn kikna í hnjánum frammi fyrir framkvæmdarvaldinu og mér finnst dapurlegt að hlusta á þennan málflutning hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur sem kom hérna í dag og talaði eins og sá sem sannfæringuna, viljann og valdið hafði og sagði ótvírætt að hún teldi að reglurnar sem hæstv. fjmrh. setti fyrir nokkrum dögum, leiddu til þess að reykingar ungs fólks á Íslandi mundu stóraukast. Nú kemur hún og slær ekki einu sinni úr og í heldur dregur úr. Hvernig stendur á þessu? Má vera að hv. þm. sem kom hér í dag og sagði það bara skýrt og skorinort að þessar reglur séu hættulegar, hafi skyndilega snúist hugur? Ekki getur það verið vegna þess að einhver ráðherra hafi komið og hvíslað í eyra hennar að þetta væri kannski óráðlegt. Hv. þm. verður að skýra þessi sinnaskipti sín. Er hún að draga til baka það sem hún sagði í dag?

Ég skil það vel að e.t.v. kunni hv. þm. að renna vatn, jafnvel kalt, milli skinns og hörunds vegna þess að málflutningur hv. þm. sem ég hef verið sammála í dag er ein samfelld árás á ríkisstjórnina vegna þeirra reglna sem hún hefur sett fram. En við skulum spyrja að leikslokum, herra forseti. Ég get hins vegar ekki fallist á það með nokkru móti að það sé í öðru orðinu hægt að segja: Þetta eru stórhættulegar reglur. En ef við setjum nógu mikið í forvarnir þá kann að vera að það sé allt í lagi með þær. Og minnist hv. þm. þeirra slagsmála sem við stóðum saman í gagnvart stjórnarflokknum hinum, Sjálfstfl., í fyrra um að auka fjármagn til forvarna? Það gekk heldur brösulega og var vilji innan nefndarinnar til að auka fjármagnið allverulega m.a. hjá einstökum hv. þm. Framsfl. Það tókst ekki. Kemur henni til hugar, ef hún lætur beygja sig í þessu máli, að henni takist með einhverju öðru móti að draga aukið fjármagn til málaflokksins? Þetta er barnaskapur, hv. þm.