Tóbaksverð og vísitala

Fimmtudaginn 17. október 1996, kl. 17:46:27 (484)

1996-10-17 17:46:27# 121. lþ. 10.11 fundur 82. mál: #A tóbaksverð og vísitala# þál., heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur

[17:46]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er svo langt síðan hv. þm. hélt sína ræðu og hann byrjaði þannig að honum vöknaði um augu og sagði að svona harðir naglar eins og hann svitnuðu yfir því hvað væri mikil samstaða um þessar tóbaksvarnir. Síðan þeytir þessi harði nagli sér út í allt aðrar umræður og snýr öllu á hvolf aftur þannig að menn botna ekki alveg í því hvert hv. þm. er að fara.

Hann spyr að því hvort ég sé sammála því sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir sagði áðan um það að ef nýjar tegundir kæmu hér á markaðinn, þá mundu reykingar ungs fólks stóraukast. Þessari spurningu get ég ekki svarað því að ég hef ekki neinar rannsóknir í höndunum um það hvort það hefur áhrif hversu margar tegundir af vindlingum eru á markaðnum þannig að það svarar náttúrlega hver fyrir sig í því. Ég efast ekki um að hv. þm. hefur það í höndunum að slíkar rannsóknir séu til. Það hef ég ekki í höndunum þannig að hún svarar fyrir sig.

Aðalatriðið er að hv. heilbr.- og trn. mun taka málið til rannsóknar. Við höfum verið sammála um það öll, hæstv. fjmrh. og hv. þingmenn, að málið fari inn í heilbr.- og trn. til athugunar og ég trúi ekki öðru en að sá harði nagli sem þar stjórnar muni gera það fyrr en síðar að taka þetta mál upp þar.