Aðlögun að lífrænum landbúnaði

Fimmtudaginn 17. október 1996, kl. 18:22:01 (493)

1996-10-17 18:22:01# 121. lþ. 10.12 fundur 83. mál: #A aðlögun að lífrænum landbúnaði# þál., ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur

[18:22]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Ég vil óska hv. þm. Þuríði Backman til hamingju með þær tvær merkilegu þingsályktunartillögur sem hún hefur mælt fyrir í dag. Báðar þessar tillögur lúta að hollustu og heilbrigði og eru því í raun hluti af forvarnastarfi sem leiðir síðan til bættrar heilsu okkar Íslendinga og þegar til lengri tíma litið koma þær til með, ef þær ná fram að ganga, að leiða til bættrar heilsu. Eins og fram hefur komið verða þær til að lækka kostnað í heilbrigðiskerfinu. Ég er stoltur af því að vera einn af flutningsmönnum þessarar tillögu. Hér er um þverpólitískt mál að ræða. Meira að segja er einn krati flutningsmaður tillögunnar og er því óhætt að segja að batnandi mönnum sé best að lifa.

Við Íslendingar höfum þegar stigið okkar fyrstu skref í framleiðslu á lífrænt ræktuðum vörum. Þó er talið að við séum um það bil tíu árum á eftir nágrönnum okkar. En ég er þess fullviss að ef rétt er málum haldið verðum við fljót að ná þeim vegna þess að við eigum mjög mikla möguleika á þessum sviðum. Framleiðsla á lífrænt ræktuðum landbúnaðarvörum leiðir auðvitað til meiri fjölbreytni í framleiðslu, eykur verðmætasköpun og er um leið atvinnuskapandi.

Það er alveg ljóst að íslenskar landbúnaðarvörur eru mjög hollar og heilnæmar. Stóran hluta af þeim landbúnaðarvörum sem við framleiðum getum við kallað vistvænar vörur. Í þessari tillögu er talað um lífrænar vörur og eins og þingmönnum er kunnugt, þá þarf sérstaka vottun til að þessar vörur séu viðurkenndar á markaðnum. Á Íslandi er sérstök vottunarstofa, vottunarstofan Tún, sem var stofnuð fyrir á að giska tveimur árum. Að henni standa nokkur sveitarfélög, m.a. Mýrdalshreppur, Hvolhreppur, Grýtubakkahreppur og reyndar fleiri aðilar.

Þess eru dæmi að nokkur býli hér á landi eru þegar farin að framleiða lífrænt ræktaðar vörur. Mýrdalshreppur hefur verið nefndur lífrænt samfélag og þeir stefna að því að framleiða lífræna vöru í auknum mæli.

Mig langar líka til þess að minnast á sambýli eins og í Skaftholti og Sólheima í Grímsnesi sem hafa framleitt um árabil lífrænt ræktaða vöru.

Kornrækt er að verða ört vaxandi búgrein hér á landi og ekki alls fyrir löngu fékk bóndi á Suðurlandi vottun fyrir lífrænt ræktaðri kornvöru. Ég veit líka dæmi þess að menn eru að framleiða lífrænt ræktaða mjólk, lífrænt ræktað lambakjöt og einnig er talsvert orðið um að grænmetisframleiðsla sé lífrænt ræktuð. Hér á landi er þess vegna að verða um mjög fjölbreytta flóru að ræða og full ástæða er til þess að gefa þessari framleiðsluvöru gaum. Heilsuvörur eru að verða æ vinsælli hér á landi og við sjáum dæmi þess að þær vörur eru seldar á háu verði, enda er dýrt að framleiða lífrænt ræktaða vöru. Lífrænt ræktaðar vörur hafa aukinn kostnað í för með sér fyrir framleiðendur, en engu að síður er fjöldi fólks sem vill gjarnan borga meira fyrir þessa vöru.

Það er ljóst að kornverð í heiminum hefur stórlega hækkað á síðustu árum og okkar íslenska landbúnaðarvara er flokkuð undir það besta sem gerist í framleiðslu á landbúnaðarvörum í heiminum. Ísland er því matarkista hvort sem við horfum til lands eða sjávar en við gefum þessum málum kannski ekki nægilegan gaum.

Í fjárlagafrv. er markaður ákveðinn tekjustofn hvað varðar lífrænt ræktuðar vörua og með leyfi forseta langar mig til þess að vitna í það sem stendur um lífrænt ræktaða framleiðslu í fjárlögum:

,,Áfram verður unnið að sérstöku átaki í framleiðslu og markaðssetningu lífrænna landbúnaðarafurða. Átakið mun standa til ársins 1998 og er gert ráð fyrir að 25 millj. kr. verði veittar á árinu 1997 vegna þessa. Til átaksins var stofnað með lögum nr. 27/1995, um átaksverkefni um framleiðslu og markaðssetningu vistvænna og lífrænna afurða. Unnið hefur verið að því að kanna möguleika á útflutningi íslenskrar framleiðslu sem lífrænt unninnar vöru. Starfið hefur beinst að því að afla markaða í Bandaríkjunum og Evrópu. Einnig hefur verið komið á vottunarkerfi fyrir lífrænt ræktaðar landbúnaðarvörur og hefur það starf notið stuðnings.``

Mér finnst ástæða til að benda á þetta. Þó hér sé ekki um háa fjárhæð að ræða, þá sýnir það ákveðna viðleitni. En betur má ef duga skal.