Aðlögun að lífrænum landbúnaði

Fimmtudaginn 17. október 1996, kl. 18:28:48 (494)

1996-10-17 18:28:48# 121. lþ. 10.12 fundur 83. mál: #A aðlögun að lífrænum landbúnaði# þál., Flm. ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur

[18:28]

Flm. (Þuríður Backman):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ísólfi Gylfi Pálmasyni fyrir hans orð. Og aðeins til viðbótar. Þetta er tiltölulega nýtt fyrir okkur Íslendinga, þetta hugtak og landbúnaður í lífrænni ræktun. Það eru ekki mörg ár síðan frumkvöðlar okkar byrjuðu, þ.e. meðvitað og samkvæmt einhverju markmiði, einhverjum stöðlum sem þeir vissu af í útlöndum og unnu eftir. Margir hverjir sögðu: Þurfum við á þessu að halda? Við eigum svo hreint land. Loftið er hreint. Jörðin er hrein. Vatnið er hreint og þetta er allt lífrænt hjá okkur. Við þurfum ekki á neinum svona stöðlum að halda. Þetta er lífrænt hjá okkur og ef þessir útlendingar geta ekki skilið að við erum með lífrænan landbúnað, þá er það bara þeirra vandamál.

En þetta er nú ekki svona. Að nokkru leyti er það hugsjón að fara í lífrænan landbúnað. Að minnsta kosti fyrir þá sem fara í þetta, er þetta algerlega nýr hugsunarháttur, ekki bara það að rækta jörðina heldur verður allt sem þeir gera með öðrum hætti. Hugsunin er önnur. Ræktunin gengur út frá hringrás efna jarðarinnar. Það er þessi eilífa hringrás að allt sé nýtt og endurnotað og ekki sé verið að bæta inn í lífskeðjuna efnum sem hrannast upp og valda eituráhrifum og jafnvel sjúkdómum. Það þarf að hlúa þannig meðvitað að dýrunum svo þeim líði vel og fái frjálsræði og verði þar af leiðandi hraustari. Menn hafa sagt mér sem þekkja vel til hjá íslenskum bændum sem eru þegar byrjaðir í þessari ræktun að eftir ákveðinn tíma megi segja að þeir hætti að leita til dýralæknis. Sá kostnaður sem er hjá mörgum vegna þjónustu dýralækna er auðvitað mismunandi eftir búum en getur verið mjög hár í sumum atvinnugreinum og búum hverfur að mestu. Þetta fylgir betri aðbúnaði.

Ég veit líka að þeir sem fóru fyrst í þessa ræktun og fengu ekki neinn stuðning til þess urðu sjálfir að berjast og leita uppi vottunarstöðvar og leita til Englands til að fá að votta sinn landbúnað og gerðu þetta allt að eigin frumkvæði voru margir hverjir álitnir dálítið skrýtnir. Ég hef það eftir einum sveitunga mínum á Héraði að hann vissi að sagt var: Er þetta nú nokkuð annað heldur en bara éta gras og stunda jóga? Svona var tekið undir það að stunda lífrænan landbúnað. En sá bóndi og þau hjón hafa unnið sér markað. Þau hafa unnið sér orð og við vitum að það sem þau eru að gera stendur undir nafni. Þeirra vara er vissulega dýrari en önnur vara í Kaupfélagi Héraðsbúa, þ.e. grænmetið, en ég sé ekki betur en sú vara renni út eins og aðrar enda vitum við hvað við höfum þar.

Það sem er mjög ánægjulegt við lífrænan landbúnað er þessi breyting á hugsunarhætti. Það er tengingin við umhverfisvernd, náttúruvernd og ræktun. Því fer það mjög vel saman að tengja saman lífræna ræktun og uppgræðslu, skjólbeltagerð og ræktun skóga.

En hvað um alla þá sem hafa ekki öðlast trúna? Auðvitað er það ekki fyrir alla að fara út í lífræna ræktun þó að okkur beri að stefna og vinna að stefnumarkandi áætlun eins og verður gert og lagt er hér fram. Ég tel að til þess að fá hljómgrunn og trú bænda almennt á lífrænni rækt verði þeir að hafa möguleika á fræðslu. Sú fræðsla sem þeir hafa fengið fram til þessa hefur ekki staðið lengi yfir. Hún hefur verið tilviljanakennd og ekki markviss. Ef á að vinna að því að koma íslenskri landbúnaðarframleiðslu eða hluta hennar sem mest yfir í lífræna ræktun verða bændur að hafa möguleika á fræðslu og þessi fræðsla þarf líka að fara inn í búnaðarskólana og garðyrkjuskólana. Þar á hún heima.

Ég þakka fyrir undirtektirnar við þáltill. og ég vona að hún fái jákvæða umfjöllun áfram. Ég leyfi mér að gera tillögu um að henni verði vísað til síðari umr. og landbn.