Minning Péturs Péturssonar

Mánudaginn 28. október 1996, kl. 15:02:28 (495)

1996-10-28 15:02:28# 121. lþ. 11.1 fundur 58#B minnst látins fyrrverandi alþingismanns#, Forseti ÓE
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[15:02]

Forseti (Ólafur G. Einarsson):

Pétur Pétursson, fyrrverandi alþingismaður og forstjóri, andaðist í gær, sunnudaginn 27. október. Hann var sjötíu og fimm ára að aldri.

Pétur Pétursson var fæddur í Mýrdal í Kolbeinsstaðahreppi 21. ágúst 1921. Foreldrar hans voru Pétur Pétursson vinnumaður á Álftá í Hraunhreppi, sem andaðist áður en sonur hans fæddist, og Ólafía Eyjólfsdóttir vinnukona í Mýrdal. Hann stundaði nám í Héraðsskólanum á Laugarvatni tvo vetur og lauk prófi 1941, var síðan einn vetur í eldri deild Samvinnuskólans og lauk prófi 1942. Veturinn 1944--1945 stundaði hann nám í verslunarháskóla í New York. Sumarið 1960 kynnti hann sér starfsemi innkaupastofnana í Bandaríkjunum í boði bandaríska utanríkisráðuneytisins.

Pétur Pétursson var skrifstofustjóri Landssmiðjunnar í Reykjavík 1947--1956, átti jafnframt sæti í viðskiptanefnd um skeið og var settur verðgæslustjóri 1950--1951. Hann var forstjóri Innflutningsskrifstofunnar 1956--1959 og forstjóri Innkaupastofnunar ríkisins 1959--1966. Framkvæmdastjóri Kísiliðjunnar við Mývatn var hann 1966--1967, forstjóri Álafoss 1968--1973, starfsmannastjóri við Sigölduvirkjun 1974--1976 og forstjóri Norðurstjörnunnar í Hafnarfirði 1976--1981. Fulltrúi í Framkvæmdastofnun ríkisins var hann 1981--1985.

Pétur Pétursson átti sæti í ýmsum nefndum og stjórnum. Hér skal aðeins tilgreint að hann var í stjórn landshafnar í Rifi 1957--1990, formaður stjórnarinnar 1957--1972 og 1980--1984. Árið 1965 var hann skipaður í samninganefnd um kísilgúrframleiðslu og átti sæti í stjórn Kísilgúrverksmiðjunnar og síðar Kísiliðjunnar 1966--1983. Frá 1972 var hann aðalræðismaður fyrir Lúxemborg. Hann var landskjörinn alþingismaður tvö kjörtímabil, 1956--1959 og 1971--1974, var í kjöri fyrir Alþýðuflokkinn í Snæfellsnessýslu fyrra sinnið, í Norðurlandskjördæmi vestra síðara sinnið. Auk þess tók hann sæti varamanns á Alþingi á hverju þingi 1959--1968 og á þingunum 1970 og 1976, átti sæti á 19 þingum alls. Þing Alþjóðaþingmannasambandsins sat hann 1957 og fundi Þingmannasamtaka Norður-Atlantshafsríkjanna 1971 og 1972.

Pétur Pétursson hneigðist ungur til jafnaðarstefnu, gekk í samtök ungra liðsmanna Alþýðuflokksins og var kjörinn þar til stjórnarstarfa, tók sæti í miðstjórn flokksins 1950 og var formaður Alþýðuflokksfélags Reykjavíkur 1959--1963. Nám hans beindist að störfum á sviði viðskipta og verslunar. Forstaða stofnana og fyrirtækja var löngum aðalstarf hans eins og æviferill hans, sem hér hefur verið rakinn, ber með sér. Hann var gæddur því lundarfari sem hentaði til stjórnarstarfa og samvinnu. Í störfum sínum aflaði hann sér víðtækrar þekkingar um íslenskt þjóðfélag og atvinnulíf og var oft valinn í samninganefndir um utanríkisviðskipti. Í tvo áratugi kom hann til starfa á Alþingi, oft til skammrar setu varamanns. Hann var traustur og ósérhlífinn flokksmaður og vinsæll samstarfsmaður.

Ég vil biðja háttvirta alþingismenn að minnast Péturs Péturssonar með því að rísa úr sætum. --- [Þingmenn risu úr sætum.]