För sjávarútvegsráðherra til Japans

Mánudaginn 28. október 1996, kl. 15:14:16 (501)

1996-10-28 15:14:16# 121. lþ. 11.2 fundur 47#B för sjávarútvegsráðherra til Japans# (óundirbúin fsp.), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[15:14]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Ég hef ekki fengið skýr svör, herra forseti, hjá hæstv. ráðherra um það hvort fyrir þessa ferð hafi verið greitt af opinberu fé eða ekki eða hvort það hafi verið japönsk stjórnvöld sem greiddu fyrir ferðina. Mér finnst sérkennilegt að fyrirtæki þurfi að leita eftir því til ráðherra að fá liðsinni hans þegar hann fer í ferðir eins og þessa til Japans, þ.e. fyrir þau fyrirtæki sem eru með viðskipti á þeim markaði. Ef ráðherra hefur verið í opinberum erindagjörðum þá hefði verið eðlilegt að bjóða upp á að hann sinnti erindum fleiri fyrirtækja en bara Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna. Vitna ég aftur til ferða Halldórs Ásgrímssonar, hæstv. utanrrh., þar sem hann bauð hinum ýmsu fyrirtækjum að vera með í för og liðkaði þannig mjög fyrir um viðskipti.

Ég spyr hæstv. ráðherra hvort önnur fyrirtæki geti vænst þess, ef þau fara fram á það við ráðherrann, að fá sömu þjónustu og SH þegar hann er á ferðinni í útlöndum. Finnst ráðherranum eðlilegt að menn þurfi að sækja eftir því til hans sérstaklega hvort þeir geti fengið liðsinni hans eða ekki eða fylgjast með ferðum hans þegar hann er á ferð um markaðssvæði þeirra?