Veiðileyfagjald

Mánudaginn 28. október 1996, kl. 15:57:52 (517)

1996-10-28 15:57:52# 121. lþ. 11.8 fundur 3. mál: #A veiðileyfagjald# þál., KHG
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[15:57]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Ég vil leggja fáein orð í belg til viðbótar því sem ég hef áður sagt í umræðunni. Ég vil fyrst fagna þeirri áherslubreytingu sem var í máli 1. frsm. tillögunnar í ræðu hans áðan frá því sem fyrr hefur verið þegar hann í raun dró alveg í land með mögulega skattheimtu af þeirri stærðargráðu sem nefnd hefur verið og getið er um í grg. með frv. Þar með má segja að um sé að ræða kúvendingu í málinu þegar menn falla frá því að með veiðileyfagjaldi á sjávarútveg sé hægt að fjármagna ríkissjóð og þarfir hans að allnokkru leyti.

Ég vil einnig nefna að þar sem menn hafa, í öðrum löndum t.d. í Bandaríkjunum, farið inn á þær brautir að skattleggja eða taka gjald fyrir veiðiheimildir, og hefur verið í umræðunni að undanförnu, er sett hámark á þær heimildir. Í Bandaríkjunum er miðað við 3% af aflaverðmæti og það er gengið út frá því að tekjurnar af því renni til að greiða tiltekinn kostnað sem ríkið verður fyrir vegna sjávarútvegs. Það er því alveg ljóst að erlendis þar sem menn velja þessa leið að einhverju marki er hún farin á þeim nótum að um er að ræða mjög hóflegt gjald til að mæta afmörkuðum kostnaði. Í reynd hefur niðurstaðan hér orðið sú sama hvort sem menn eru sammála því eða ekki. Við vitum, eins og ég gat um í fyrri ræðu minni, að hér er gjaldtaka sem knúin var í gegn í tíð síðustu ríkisstjórnar. Íslenskir útgerðarmenn greiða í dag veiðileyfagjald fyrir hvert úthlutað kíló auk tveggja annarra veiðileyfagjalda eins og ég rakti í fyrri ræðu minni.

[16:00]

Í sjálfu sér er ekki hörgull á gjöldum á sjávarútveginn í dag og í raun er þessi umræða ekki deila um hvort eigi að taka upp veiðileyfagjald eða ekki. Við erum með þessa skattlagningu í dag. Sjónarmiðin eru miklu frekar mismunandi um hversu mikið menn ætla að hafa upp úr sjávarútveginum. Segja má að annars vegar séu þeir sem vilja miða gjaldið við afkomu sjávarútvegs á hverjum tíma, taka til ríkisins gjald sem miðast við afkomu í greininni. Hins vegar eru hin sjónarmiðin sem hafa verið efst á baugi hjá þeim sem hafa mælt fyrir þessari tillögu, þ.e. að skattleggja atvinnugreinina mjög mikið án þess að hún ætti fyrir því út á það að hún muni einhvern tímann í framtíðinni eignast peninga. Það má segja að með ræðu hv. þm. Ágústs Einarssonar áðan hafi hann dregið þetta sjónarmið eiginlega alveg í land þannig að kannski er ekki svo mikið sem stendur eftir í þessu máli þegar tekið er tillit til þeirra breyttu sjónarmiða sem fram komu.

Ég vil minna á í þessari umræðu að vandamálið í íslenskum sjávarútvegi er ekki skorturinn á sköttum á atvinnugreinina. Vandamálið er það sem brennur á fólki. (Gripið fram í: Skortur á fiski.) Það er kannski fyrst og fremst skortur á fiski, já. Menn þurfa að fá að veiða meira. Þeir sem búa í samfélögum sem að mestu leyti byggja afkomu sína á sjávarútvegi þurfa að fá að veiða meira ef ekki á illa að fara. Þeir eiga að njóta þess að atvinnusamsetning er eins og raun ber vitni og að þessi byggðarlög eru við sjávarsíðuna og urðu til á sínum tíma til þess að stunda fiskveiðar og nýta þau mið sem þar liggja undan. Það sem vantar í íslenska löggjöf er að hún tekur ekki tillit til þessara atriða. Því eru atvinnuhagsmunir íbúa á landsbyggðinni í verulegu uppnámi meðan löggjöfin um íslenska fiskveiðistjórnun er eins og raun ber vitni.

Ég get ekki látið hjá líða að minnast á að bæði í Noregi og Bandaríkjunum hafa menn valið þann kost að taka verulegt tillit til hagsmuna íbúanna og viðurkenna þar með í raun að íbúarnir eru aðilar að málinu og hagsmuna þeirra ber að gæta. En hér á landi hefur löggjöfin því miður verið þannig að einungis er miðað við hagsmuni útgerðarmannanna. Það eru ekki endilega sömu hagsmunir sem þar liggja að baki, útgerðarmanna annars vegar og íbúanna, sjómannanna og fiskvinnslufólksins hins vegar.

Herra forseti. Ég vil nefna það sem mér finnst kannski helsti galli á þessari tillögu og hún hefði þurft að taka á til að hún væri brúkleg, þ.e. að um væri að ræða yfirlýsingu, pólitíska yfirlýsingu um almenna stefnumörkun um auðlindanýtingu. Það er aðeins getið um gjald á sjávarútveg eða úthlutaðar aflaheimildir. Ekki er svipuð tillaga hvað varðar aðrar auðlindir. Ég nefni heitt vatn sem er auðvitað auðlind. Ég spyr: Hví hefur þingflokkur jafnaðarmanna ekki gert kröfur til þess að heita vatnið sé sameign þjóðarinnar? Það sé þá skattlagt í ríkissjóð eins og fiskveiðiheimildir og menn noti þann skatt til að jafna kostnað íbúanna af því að þurfa að hita upp sín hús. Er það kannski af því að þingflokkur jafnaðarmanna er þannig samansettur að hann hefur meiri áhuga á að verja hagsmuni höfuðborgarsvæðisins en minni áhuga fyrir að verja hagsmuni landsbyggðarinnar að hann leggur ekki til að taka þarna pening til að jafna og lækka orkukostnað úti á landi. Hann leggur bara til að taka peninga af landsbyggðinni og færa í ríkissjóð til Reykjavíkur. Það er auðvitað grundvallarmunur á þessu. Ef menn hefðu lagt til hvort tveggja væri ástæða til að líta á málið því þá væru menn að tala um samræmda stefnu þar sem sömu sjónarmið gilda gagnvart öllum og ólíkum auðlindum þjóðarinnar. Ég nefni heita vatnið vegna þess að augljóst er eins og notkunin hefur verið á því á höfuðborgarsvæðinu að um verulega sóun er að ræða. Vegna þess að það hefur verið svo ódýrt hafa menn getað nýtt það til hinna ýmsu þarfa, nauðsynlegra og ónauðsynlegra. Menn hafa notað mikið af heitu vatni, miklu meira en þörf hefur verið á og sóað þeirri auðlind af því að verðið hefur verið svo lágt. Með þeim rökum sem flutt eru fyrir veiðileyfagjaldi á veiðiheimildir má yfirfæra þau rök líka á afnot af heitu vatni auk þess að sá sem selur heita vatnið, Reykjavíkurborg, tekur í borgarsjóð en ekki til að reka veitukerfið sjálft, 27% af hinu útselda verði. Fyrst verðið er ekki hærra en svo að leggja má á þá sem borga, neytendurna, sérstakan skatt er þá ekki hægt að taka þetta gjald í ríkissjóð til að jafna milli landsmanna fremur en að taka það í borgarsjóð til að borga almennar þarfir sveitarsjóðs? Mér finnst að með þeirri stefnu sem borgaryfirvöld hafa rekið í þessu máli hafi þau í raun varpað boltanum til manna að íhuga málið á þann veg að afgjald af heitu vatni renni í ríkissjóð rétt eins og menn tala fyrir því að afgjald af aðgangi að auðlindinni í sjónum renni í ríkissjóð.