Veiðileyfagjald

Mánudaginn 28. október 1996, kl. 16:08:43 (519)

1996-10-28 16:08:43# 121. lþ. 11.8 fundur 3. mál: #A veiðileyfagjald# þál., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[16:08]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ef málið snýst aðeins um að skattleggja atvinnugrein samkvæmt þeim efnahag sem þar er hverju sinni er ekki þörf á að finna upp nýjan skatt. Það er til nú þegar nóg af sköttum til að beita til að ná út þeim hagnaði sem verður til á hverjum tíma. Í öðru lagi hvað varðar það sem í greininni stendur, þá segir, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að taka beri upp veiðileyfagjald í sjávarútvegi.``

En hvað varðar aðrar auðlindir þá stendur, með leyfi forseta:

,,Nefndin kanni enn fremur leiðir til að leggja auðlindagjald á aðrar auðlindir í eigu þjóðarinnar, svo sem vatnsorku.``

Þarna er bara tillaga um að kanna. Það er ekki tillaga um stefnu. Hv. þm. Ágúst Einarsson leggur ekki til í þessari tillögu sinni að tekið verði upp auðlindagjald á heitt vatn til að jafna á milli þeirra sem þurfa að borga mikið og þeirra sem þurfa að borga lítið, eins og jafnaðarmenn eiga ávallt að gera og hafa í fyrirrúmi í sínum störfum. Og er nú ekki farið fram á mikið í þessu efni því verð á heitu vatni er með því lægsta sem gerist í heiminum.

Ég vil að lokum segja, herra forseti, að fleiri en ég hafa skilið ræður hv. þm. á þann veg að verið sé að taka mikinn skatt af sjávarútveginum. Ég var á fundi á Ísafirði sl. laugardag, svokallaðri morgunstund jafnaðarmanna, sem var ákaflega ánægjulegur fundur og vinsamlegur. Þar var mælt fyrir veiðileyfagjaldi af tveimur hv. þm. þingflokks jafnaðarmanna og það var enginn fundarmaður sem tók undir þær hugmyndir eða mælti þeim bót. Þvert á móti voru þeir nokkuð margir sem mæltu gegn þeim hugmyndum, þar á meðal mjög glöggir og fróðir menn úr Alþfl. sem þekkja vel til í sjávarútvegi.