Veiðileyfagjald

Mánudaginn 28. október 1996, kl. 16:13:12 (521)

1996-10-28 16:13:12# 121. lþ. 11.8 fundur 3. mál: #A veiðileyfagjald# þál., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[16:13]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil árétta það að allir útgerðarmenn greiða veiðileyfagjald í dag, hver einn og einasti, bæði þeir sem þurfa að kaupa veiðiheimildir af öðrum og eins hinir sem fá úthlutað beint frá ríkinu. Þetta liggur alveg ljóst fyrir og er óumdeilt. Það er því engin þörf á að taka upp enn eitt veiðileyfagjaldið í einhverju prinsippskyni. Við leysum engin prinsippvandamál með því að bæta við nýju gjaldi ofan á hin gjöldin. Það getur ekki verið röksemd fyrir því að taka upp nýtt gjald sem yrði þar að auki mjög hátt. Í grg. með þáltill. er gengið út frá að greiddar séu 90 kr. fyrir hvert úthlutað kíló og er auðvitað alveg út í hött að nokkrum manni detti í hug að hægt sé að leigja allar veiðiheimildir á Íslandsmiðum á þessu verði. Ég bið því hv. þm. Ágúst Einarsson að vera ekki að setja málið upp þannig að það sé einhver ágreiningur um að íslenskur sjávarútvegur eigi að borga skatta. Það er enginn ágreiningur um það. Við leggjum mikið af sköttum á sjávarútveginn og við erum að hækka skattana á hann og hækka þá umfram skatta á öðrum atvinnugreinum þannig að ég sé ekki að aðrar atvinnugreinar séu neitt sérstaklega vanhaldnar vegna skorts á skattlagningu á sjávarútveginn.

Ég vil svo, virðulegur forseti, hvetja hv. þm. til að standa að því sjónarmiði sem ég hef sett hér fram því okkur veitir ekki af að fá liðsmenn í þeim efnum --- að jafna lífskjörin hér á landi. Einn drjúgur útgjaldaliður heimilanna er orkukostnaðurinn við að kynda húsnæðið. Ég vænti þess að hv. þm. Ágúst Einarsson og félagar hans taki höndum saman með mér og fleirum sem vilja jafna þennan kostnað. En það verður ekki gert nema láta þá sem borga lítið í dag borga tiltekinn skatt og nota tekjurnar af því til að greiða niður hjá hinum sem borga mikið. Það er eina leiðin sem við höfum til að jafna þennan kostnað og mér þykir miður eins og ég gat um áður að ekki er tekið fram í þáltill. að það eigi að taka upp auðlindagjald á heitt vatn eða vatnsorku. Það er auðvitað vegna þess að flutningsmenn eru ekki tilbúnir að lýsa því yfir að þeir styðji það mál. En ég vil hvetja hv. þm. Ágúst Einarsson og aðra flm. til að íhuga það í fullri alvöru að taka upp þá stefnu sem ég hef talað fyrir í jöfnunarátt í þessu efni og vænti góðs af liðsinni hans og hans flokksmanna í þeim efnum.