Veiðileyfagjald

Mánudaginn 28. október 1996, kl. 16:16:09 (522)

1996-10-28 16:16:09# 121. lþ. 11.8 fundur 3. mál: #A veiðileyfagjald# þál., JBH
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[16:16]

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Viðbrögð við þessari tillögu okkar jafnaðarmanna um að taka upp veiðileyfagjald í sjávarútvegi hafa verið sterk bæði úti í þjóðfélaginu og eins hér á hinu háa Alþingi meðal forustumanna stjórnmálaflokka. Sérstaka athygli hafa vakið viðbrögð annars vegar hæstv. utanrrh. og form. Framsfl. og hins vegar viðbrögð hæstv. forsrh. og form. Sjálfstfl. Hæstv. utanrrh. hefur viðurkennt í ræðum sínum að hann verði var við mjög þunga undiröldu óánægju og gagnrýni á óbreytt kerfi. Hann hefur hins vegar sem talsmaður hlutdeildaraflamarkskerfis með framsalsrétti bent á að það kerfi hafi skilað umtalsverðum árangri að undanförnu, það er að segja aukið arðsemi í sjávarútvegi. Hann hefur rifjað upp að sjávarútvegurinn var skuldum vafinn og er það vissulega enn en sá árangur hefur náðst að sjávarútvegurinn er að greiða niður skuldir. Engu að síður hefur hann sagt að ef almenningur í landinu sannfærist um það að þeir sem forréttindanna njóta, þ.e. fá gjafakvótana, misnoti þetta kerfi þannig að það bitni á öðrum, t.d. sjómönnum sem gerðir eru að leiguliðum og hlunnfarnir í hlutaskiptakerfinu eða að aukin arðsemi verði til þess að sprengja upp kvótaverð og hafi þannig keðjuverkandi áhrif á verðmyndun í sjávarútvegi og eigi sinn hlut í hallarekstri í landvinnslunni, þá hljóti menn að taka þetta til endurskoðunar. Með öðrum orðum hann segir að hann útiloki ekki að þessi tillaga kunni að koma til framkvæmda ef annars vegar þær aðstæður skapast að skuldir lækka og arðsemin eykst eða hins vegar að núverandi kerfi bjóði upp á misnotkun sem særi réttlætiskennd almennings. Þetta finnst mér afar athyglisverður árangur vegna þess að til skamms tíma var litið á hæstv. utanrrh. sem nánast hugmyndafræðilegan rétthafa kvótakerfisins og talsmann og til skamms tíma ekki vitað að hann léði máls á neinum breytingum á þessu kerfi. Í raun og veru hefur hann viðurkennt réttmæti gagnrýninnar og hann tekur ekki af neinum grundavallarástæðum afstöðu gegn tillögunni en segir að hún sé ekki tímabær.

Að því er varðar hæstv. forsrh. þá víkur málinu öðruvísi við vegna þess að fæstum var kunnugt um hvaða afstöðu hann hefur haft til þessa kerfis. Þrátt fyrir allnáið samstarf við hæstv. forsrh. á undanförnum árum verð ég t.d. að játa að mér er ekki kunnugt um að hann hafi tjáð sig um grundvallarþætti þessa kerfis. Og með vísan til ákvæðis í stjórnarsáttmála fyrrv. ríkisstjórnar þar sem m.a. var kveðið á um að gera sameignarákvæði fisveiðilöggjafarinnar virk með stjórnskipulegum hætti mátti vel út af fyrir sig álykta að hæstv. forsrh. væri í mun að sameignarákvæðið væri a.m.k. fest örugglega í sessi þannig að þróun sem gæti orðið til þess að hefðarbinda einkaeignarrétt, breyta nýtingarrétti í hefðarvarinn eignarrétt, að þeirri hættu yrði bægt frá.

Þess vegna segi ég að mér kom nokkuð á óvart að hæstv. forsrh. kvað mjög fast að orði á landsfundi þeirra sjálfstæðismanna þegar hann lýsti þessari tillögu á þá leið að hún væri einhver sú vitlausasta sem hann hefði heyrt lengi. Og greip til þess að rökstyðja sitt mál á þann veg að mér fannst hann fara, satt að segja, nokkuð frjálslega með staðreyndir. Hæstv. forsrh. komst að orði eitthvað á þá leið að tillögumenn hefðu áhyggjur af of mikilli arðsemi í sjávarútvegi og hefðu uppi hugmyndir um skattlagningu til að taka þennan mikla og vaxandi arð --- nefndar háar tölur --- úr sjávarútveginn og að þungamiðjan í þessum tillögum væri síðan gengislækkun mjög stór í sniðum sem mundi leiða til kollsteypu og kollvarpa raunverulega þeim efnahagsárangri sem hér hefur náðst á undanförnum árum.

Það er vægast sagt svo að þetta er að fara nokkuð frjálslega með staðreyndir. Að því er varðar fiskveiðiarðinn þá er vitnað í álit sérfræðinga við Háskóla Íslands, sem vitað er að eru miklir talsmenn þessa kerfis. Þeir hafa sagt að niðurstaðan af reiknilíkaninu sýni að við kjöraðstæður, þ.e. aflamarkskerfi með framsali sem nær hámarksárangri, geti sjávarútvegurinn skilað tugmilljarða arði. Þetta er ekki áróður af hálfu flutningsmanna. Þetta eru niðurstöður vísindalegrar úttektar fræðimanna við Háskóla Íslands. Af hálfu talsmanna þessarar tillögu hefur komið fram að við núverandi skilyrði er þessi arður að vísu vaxandi en hann er enn sem komið er fáeinir milljarðar.

Að því er það varðar að tillögumenn leggi til að þessi arður verði tekinn í formi skattlagningar úr sjávarútveginum og nemi mörgum milljörðum eða tugum milljarða þá er það að sjálfsögðu öfugmæli. Og sama er að segja að því er varðar það að fyrir tillögumönnum vaki að koma hér á stórfelldri gengisfellingu og kollsteypu. Í raun og veru er þetta öfugmæli. Það sem tillögumenn eru að segja er þetta: Ef við vísum til reynslu af hagstjórn á Íslandi og þannig fer að raungengishækkun verður veruleg sem endi með því að önnur atvinnustarfsemi þrífst ekki við hliðina á sjávarútvegi í uppsveiflu, er fullkomlega hætta á því að óbreytt kerfi án aðgerða færi okkur út í þær ógöngur að við lendum í gengiskollsteypu og óðaverðbólgu. Þessi tillaga er sett fram sem leið til þess að forðast að við lendum í þessum ógöngum. Þessi málflutningur hæstv. forsrh. hlýtur því að flokkast undir það að fara nokkuð frjálslega með staðreyndir. En hitt er athyglisvert að hæstv. forsrh. hefur lýst eindreginni andstöðu við þessar tillögur. Ég skil hann á þá leið að hann lýsi stuðningi sínum við óbreytt ástand. Það er athyglisvert sérstaklega í ljósi þess að þá er kominn upp talsverður skoðanamunur um þetta mikla mál milli annars vegar form. Framsfl. og hins vegar form. Sjálfstfl., milli hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh.

Síðan er athyglisvert að það er vitað um hæstv. fjmrh., varaformann Sjálfstfl., að hann hefur verið jákvæður gagnvart tillögum um veiðileyfagjald og hefur lýst þeim skoðunum sínum bæði innan ríkisstjórnar og á hinu háa Alþingi að eðlilegt sé að taka upp gjaldtöku í sjávarútvegi (Forseti hringir.) a.m.k. sem svarar kostun á þeirri þjónustu sem ríkið lætur í té.

Virðulegi forseti. Það má svona nefna að (Forseti hringir.) það kostulegasta í þessum málflutningi er náttúrlega þegar menn grípa til orðaleppa eins og þeirra að við sem erum talsmenn veiðileyfagjalds gerum það af því við erum sósíalistar eða ríkisforsjármenn þar sem aftur á móti staðreyndin er sú að (Forseti hringir.) gjafakvótakerfið er hið dæmigerða skömmtunarkerfi og ríkisforsjárkerfi sem við erum eindregið andvígir.