Veiðileyfagjald

Mánudaginn 28. október 1996, kl. 16:48:39 (529)

1996-10-28 16:48:39# 121. lþ. 11.8 fundur 3. mál: #A veiðileyfagjald# þál., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[16:48]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Þetta mál snýst ekki um það að vera með eða á móti markaðskerfinu. Þetta mál snýst ekki um það að vera með eða á móti réttlætinu eins og stundum er látið að liggja. Við skulum ekki reyna að ræða þetta á þeim nótum. Ég held að það sé heldur ekki rétt að stilla dæminu upp eins og formaður Alþfl. gerði hér áðan, hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson, að það sé einhver sérstök mannasetning og stefna í sjálfu sér að skammta mönnum aðgang að þessari grein. Það er ekki svo. Það sem hér er á ferðinni er það að menn hafa orðið ásáttir um að það sé óhjákvæmilegt auðlindinni sjálfri til verndar að stýra nýtingunni á henni með tilteknum hætti og það leiðir til þess að ekki geta allir fengið allt sem þeir vilja í þessu tilviki frekar en öðrum.

Það er hins vegar ekki svo, hv. þm., að það sé búið að banna hv. þm. eða einhverjum öðrum að hasla sér völl í þessari grein. Nú liggur fyrir að hv. þm. hyggst skipta um starfsvettvang e.t.v. innan skamms og það er bókstaflega ekkert í lögum sem takmarkar möguleika hv. þm. Jóns Baldvins Hannibalssonar á því að fara að hasla sér völl í sjávarútvegi. (JBH: Kaupa kvóta.) Það er frjálst. Hv. þm. stofnar heldur ekki búð nema fá sér húsnæði o.s.frv. Það hefur ekki gerst hér, það er ekki búið að afmarka um aldur og ævi og velja út þann hóp einan sem stunda megi sjávarútveg. Það sem er búið að gera er að setja tilteknar reglur sem takmarka áganginn á auðlindina henni sjálfri til verndar. Það er nauðsynlegt vegna þjóðarhags, vegna þess að skammsýn sjónarmið mega ekki ráða um of ferðinni þegar kemur að nýtingu af þessu tagi. Það sem menn tala hér fyrst og fremst um og ég held að umræðan betur beindist að er rétturinn sem settur var inn í kerfið til þess að leigja þessi verðmæti, til þess að fénýta þau endurtekið ár eftir ár án þess að menn noti þau sjálfir. Ég held að það sé alveg augljóst mál að það er skynsamlegt að gera skýran greinarmun á því annars vegar og hinu hvort menn varanlega hverfa út úr starfsemi í þessari grein. Slík verðmæti, slík aðstaða er úti um allt þjóðfélagið að skipta um hendur og oft kemur endurgjald fyrir og aðstaðan sem menn eru sem atvinnurekendur í sjávarútvegi í er að því leyti til ekkert mjög ólík aðstöðu sem menn eru í víða annars staðar í atvinnulífinu og er ávísun á tiltekin verðmæti.