Veiðileyfagjald

Mánudaginn 28. október 1996, kl. 16:53:59 (531)

1996-10-28 16:53:59# 121. lþ. 11.8 fundur 3. mál: #A veiðileyfagjald# þál., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[16:53]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég held að hv. þm. lendi í verulegum ógöngum með þessum málflutningi vegna þess að niðurstaða hv. þm. getur að lokum ekki orðið önnur en sú að það standist ekki að takmarka aðganginn að auðlindinni, það sé brot á jafnræðisreglum, það verði að ríkja frelsi, allir verði að standa jafnt að vígi, segir hv. þm. Annars sé það brot á guðs og manna lögum og hann hafði um það hin hörðustu orð.

Nú er aðstaðan sú að við erum hérna með lífræna, takmarkaða auðlind og við erum orðnir þeirrar niðurstöðu að það sé óhjákvæmilegt henni sjálfri til verndar að takmarka aðganginn að henni. Þá stöndum við með einum eða öðrum hætti frammi fyrir því verkefni að það verðum við að gera og í sjálfu sér er þetta vandinn í hnotskurn. Menn geta svo endalaust þanið sig um það hvort eitt kerfi sé öðru betra í því sambandi, en það mun aldrei breyta þeirri staðreynd að ekki er pláss þarna fyrir alla. Það geta ekki allir farið og tekið eins mikið og þeir vilja, það er vandinn í hnotskurn. Það þýðir að með einum eða öðrum hætti verður að koma þessari takmörkun fyrir. Menn eiga ekki að vera að þvæla um hlutina öðruvísi en þeir eru, þeir eru nákvæmlega svona. Ég held að það sem er siðferðislega rangt við núverandi ástand sé að menn geti leigt réttindin ár eftir ár frá sér án þess að nýta þau sjálfir og fénýtt þau. Það hvort menn sem hafa um langt árabil eða áratugi stundað útgerð vegna þess að það er verkaskipting í þjóðfélaginu ákveði að hætta því, selja sína aðstöðu, sitt skip, sinn rekstur og hverfa út úr greininni er allt annar hlutur. Það er það sem ég var að vísa til að slík verðmæti, slík aðstaða gengur kaupum og sölum í þjóðfélaginu og þykir ekkert óskaplegt tiltökumál. Og það er ástæðulaust með öllu að snúa út úr því þó að þannig samanburður sé tekinn. Það er hins vegar gersamlega ósambærilegt við það hvort mönnum á að líðast að leigja réttindin án þess að nýta þau sjálfir ár eftir ár eftir ár eftir ár. Það á að stoppa og ég tel að viðskiptin með hinn varanlega afnotarétt sem við höfum ákveðið að einhverjir skuli hafa og nýta í þágu þjóðarbúsins eigi að fara yfir viðurkenndan markað þannig að það ríki siðaðra manna lögmál í viðskiptum með þá hluti. Gleymum því ekki að lokum að það hefur aldrei verið svo þó að hér sé um sameiginlega auðlind þjóðarinnar ræða að hvert einasta mannsbarn hafi verið fullgildur þátttakandi í nýtingu hennar sem slíkri. Það hafa sjómenn og útgerðarmenn gert fyrir okkur um áratuga og alda skeið vegna þess að það ríkir tiltekin verkaskipting í þjóðfélaginu.