Veiðileyfagjald

Mánudaginn 28. október 1996, kl. 17:01:22 (534)

1996-10-28 17:01:22# 121. lþ. 11.8 fundur 3. mál: #A veiðileyfagjald# þál., Flm. ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[17:01]

Flm. (Ágúst Einarsson) (andsvar):

Herra forseti. Upphaf ræðu hv. þm. var býsna skynsamlegt þar sem hann fellst á að hægt sé að ræða þessi mál aðskilin og að sjálfsögðu hefur hann sagt það allan tímann. En hann gerði kannski í fyrsta skipti tilraun til að ræða málin í sambandi við veiðileyfagjald án þess að blanda fiskveiðistjórnuninni inn í.

Hann nefndi réttilega að raungengið er lágt nákvæmlega eins og ég var að segja. Nú blómstrar samkeppnisiðnaður og annar iðnaður. Það er einmitt sú staða sem við viljum halda. Við erum að tala um að reyna að skapa skilyrði fyrir annað atvinnulíf að þróast við hlið hins sterka sjávarútvegs. Það sem við erum að segja í sambandi við efnahagsmál í sjávarútvegi er að með vaxandi fiskveiðiarði --- og það er ekkert sem bendir til annars en að fiskstofnanir muni halda áfram að braggast og við hagræðum meira í útgerð. Ég geri mér fullkomlega grein fyrir afkomu í botnfiskvinnslu núna. Ég veit líka alveg hver er afkoma í útgerð og ég þekki mætavel líka til afkomu í sjávarútvegi. En málið er að þessi staða knýr það á hækkun raungengis. Það mun skapa erfiðleika hjá öðrum atvinnuvegum, samkeppnis- og útflutningsiðnaði. Það mun kalla á þenslu, hugsanlega á gengisbreytingu og verðbólgu. Það er þetta sem við erum að tala um að reyna að koma í veg fyrir. Það eru hin efnahagslegu rök í þessu máli. Það er enginn að taka sjávarútveginn neitt sérstaklega út úr sviga og skattleggja hann eins og hér er orðað. Hér er einmitt eina ferðina enn með réttu verið að setja sjávarútveginn í miðpunkt hagstjórnar á Íslandi. Við komumst aldrei hjá öðru en miða hagstjórnina út frá þessum sterka atvinnuvegi hérlendis. Það er einmitt það sem þessi umræða snýst um. Ég mun fagna því ef hv. þm. féllist á það með okkur að veiðileyfagjald, ef maður tekur þá umræðu sérstaklega, getur verið skynsamleg aðferð fyrir utan réttlætisrökin sem eru í þessu máli.

Síðan er það svo allt annað mál og getur vel verið að það sé miklu brýnna, að skoða breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu sem slíku. Menn geta þá tekið umræðu um það sérstaklega. En þá skulum við gera það á grundvelli tillagna um fiskveiðistjórnunarkerfið, ekki gera það með óbeinum hætti í tillögu um veiðileyfagjald. Ég er hins vegar tilbúinn í slíka umræðu hvenær sem er.