Þingsköp Alþingis

Mánudaginn 28. október 1996, kl. 17:36:54 (540)

1996-10-28 17:36:54# 121. lþ. 11.9 fundur 21. mál: #A þingsköp Alþingis# (rannsóknarvald þingnefnda) frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[17:36]

Svavar Gestsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla út af fyrir sig ekki að blanda mér í þessa umræðu frekar. Ég tók þátt í henni um daginn og setti fram nokkrar hugmyndir um breytingar á þingsköpum og benti m.a. á að það hefur verið unnið að breytingum á þingsköpum á vettvangi formanna þingflokkanna. Ég á von á því að út úr því komi einhver niðurstaða núna alveg á næstunni og sjálfsagt er hægt að skoða þetta frv. í því samhengi líka eins og aðrar hugmyndir.

En ástæða þess að ég kvaddi mér hljóðs er að fagnefndirnar hafa núna frá 1991 fjallað um fjárlagafrv. Ég held ég tali fyrir munn langflestra þigmanna þegar ég segi: Þingmenn hafa það yfirleitt á tilfinningunni að fjárln. taki ekkert mark á því sem frá okkur kemur, ekki neitt. Ég gleðst auðvitað yfir því ef það er þannig eins og hv. þm. Sturla Böðvarsson lýsir því, að þetta séu mikilvæg gögn. En við sjáum þess ekki stað. Og þá vil ég segja: Þegar um það er að ræða að stjórn og stjórnarandstaða klofna t.d. í áliti fagnefndar um einstakan þátt fjárlagafrv. þá ætlumst við ekki til þess að stjórnarliðið eða meiri hlutinn fari endilega að taka upp sjónarmið minni hlutans. Það er ekki það sem við erum að tala um. En ég kann dæmi þess að hreinar tæknilegar ábendingar, fullkomlega pottþéttar tæknilegar ábendingar náðu ekki eyrum fjárln. Og ég tel þetta afleitt og tilfinningin í fagnefndunum er sú að það þýði ekki lengur að leggja eins mikla vinnu í þetta og við gerðum í upphafi þegar þetta fyrirkomulag var tekið upp. Mér þykir því vænt um að heyra þessa yfirlýsingu hv. þm. og ég tel að ég hafi ágæta ábendingu um lausn á þessum samskiptavanda sem er til. Hún er sú að formenn nefndanna allra fari á fund fjárln. og fylgi bréfum nefndanna munnlega eftir við fjárln. þannig að það fari ekkert á milli mála hver þau áhersluatriði eru sem viðkomandi nefndir telja mikilvægast að koma á framfæri. Það þarf ekki að taka nema 15--20 mínútur fyrir hverja fagnefnd til að koma þessu á framfæri og ég tel að það sé mjög mikilvægt upp á, mér liggur við að segja, sjálfsvirðingu fagnefndanna í þessu máli.