Þingsköp Alþingis

Mánudaginn 28. október 1996, kl. 17:41:29 (542)

1996-10-28 17:41:29# 121. lþ. 11.9 fundur 21. mál: #A þingsköp Alþingis# (rannsóknarvald þingnefnda) frv., Flm. JóhS
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[17:41]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þær umræður sem hafa orðið um þetta frv. Þær urðu þó nokkuð miklar fyrir rúmri viku síðan og þar komu fram margar mjög gagnlegar ábendingar að mínu viti varðandi ýmsar hugmyndir sem þingmenn hafa um breytingar á þingsköpum. Ég held að sé alveg ljóst og mér fannst vera gegnumgangandi í þessari umræðu, að þingmenn hafa mikinn hug á því að skerpa skil milli framkvæmdarvalds og löggjafarvalds sem ýmsir færðu mjög góð og sterk rök fyrir að eru mjög óljós.

Fyrst, virðulegi forseti, varðandi það síðasta sem hér var til umræðu, um álit fagnefnda við umfjöllum fjárlaga í fagnefndum og í fjárln. Mér finnst ábending hv. 8. þm. Reykv. varðandi það atriði alveg hárrétt. Við þekkjum það öll sem höfum starfað í fagnefndum að okkur finnst mjög lítið tillit tekið til þeirra ábendinga sem þar hafa komið fram. Ég held að það sé mjög slæmt að þetta sé svona vegna þess að þá minnkar áhugi fagnefndanna á að skila af sér góðu og ítarlegu starfi varðandi umfjöllum einstakra kafla í fjárlagafrv. sem ég tel mjög gagnlega. Og ég tel að það hafi gagnast mjög við fjárlagaumræðuna að fá slíkt álit frá fagnefndunum. Ég held að það þurfi að taka sérstaklega upp í forsn. hvernig með þetta eigi að fara og ábendingu hv. 8. þm. Reykv. um það að formenn eða talsmenn meiri og minni hluta í fagnefndum rökstyðji sitt álit fyrir fjárln. tel ég góða. En ég vil líka benda á að ég tel að fjárln. ætti þá líka að rökstyðja það fyrir fagnefndunum af hverju hún tekur ekki tillit til sameiginlegra ábendinga sem koma frá stjórn og stjórnarandstöðu í fagnefndunum. Það tel ég algjört lágmark. Ég held að það sé mjög mikilvægt að þessu sé fundinn betri farvegur.

Ég held að það sé mjög mikilvægt sem kom fram í umræðunum um daginn að skýrslur Ríkisendurskoðunar og umboðsmanns Alþingis fái ítarlegri umfjöllun í nefndum. Ég held að það sé alveg hárrétt að ábendingum t.d. umboðsmanns Alþingis er ekki nægjanlega fylgt eftir. Ég tel að það þurfi sérstakrar skoðunar við og tel reyndar að það þurfi að styrkja embætti umboðsmanns Alþingis.

Hv. þm. Svavar Gestsson nefndi það að hann teldi að þál. fælu ekki í sér stefnumótun. Ég held að það sé rangt vegna þess að ef þáltill. er samþykkt, t.d. um ákveðna stefnumörkun í menntamálum, húsnæðismálum eða öðru, þá er það ákveðin stefnumörkun til framkvæmdarvaldsins um hvernig Alþingi vill sjá stefnumótun í þessum tiltekna málaflokki. Það mætti vel hugsa sér að farið yrði meira inn á svipaða braut og er t.d. í norska þinginu, þ.e. þegar ríkisstjórn eða einstaka ráðherrar eru að láta vinna stefnumótun í ákveðnu máli þá er fyrst unnin ákveðin forvinna í því þar sem nefnd skilar af sér skýrslu áður en kemur að því að móta eða undirbúa frv. Slík skýrsla sem felur þá í sér ákveðna stefnumótun er lögð fyrir þingið til umfjöllunar áður en framkvæmdarvaldið eða ráðuneyti og ráðherra hefst handa um að undirbúa frv. á grundvelli skýrslunnar. Ég held að það séu vinnubrögð sem við mættum taka okkur til fyrirmyndar við stefnumótun í stórum málaflokkum, t.d menntamálum, heilbrigðismálum, húsnæðismálum. Þegar sú vinna liggur fyrir af hálfu ráðuneytisins og skýrsla liggur fyrir þá sé hún tekin til umfjöllunar áður en farið er að undirbúa frv. Við fáum oft skýrslur hingað inn á Alþingi en síðan er oft ekkert meira með þær gert. Þær eru kannski settar í hólf þingmanna en svo er ekkert meira með það gert og það næsta sem gerist er að það kemur frv. um málið inn á þingið og þá fyrst fjallar þingið um það. Þetta held ég að væri eitt atriði sem mætti breyta í vinnubrögðum þingsins.

[17:45]

Það var rætt um ítök hagsmunaaðila í störfum þingsins og lagasetningu. Auðvitað mætti margt um það segja. Það er brýnt að Alþingi hafi sem best samráð við þá aðila sem lagasetningin varðar sérstaklega. Mér finnst oft brenna við að ítök hagsmunaaðila séu of mikil við lagasetningu. Eitt dæmi er mér ofarlega í huga en það er t.d. þegar samið var um húsnæðiskerfið í kjarasamningum á milli aðila og ríkisvaldsins 1986. Þá kom það hingað inn í þingið og það mátti ekki breyta punkti eða kommu og síðan sýndi Ríkisendurskoðun fram á það þremur árum seinna að kerfið var gjaldþrota. Ég nefni þetta sem eitt dæmi.

Varðandi starfsaðstöðu þingmanna er alveg ljóst að hún hefur breyst mjög til batnaðar. Nefndadeildin vinnur þar mjög gott verk og öll starfsaðstaða nefnda er með allt öðrum hætti en var á árum áður. Þó vil ég nefna að mér finnst að Alþingi eigi að hafa sína eigin hagdeild og jafnvel sitt eigið lagaráð. Mönnum finnst það kannski vera stofnanir sem séu til út í bæ og því sé óþarfi að vera með þær innan þings en það er varla til það verkalýðsfélag eða félagasamtök sem ekki hafa sínar eigin hagdeildir.

Það er alveg rétt að þingmenn geta leitað til Þjóðhagsstofnunar og fjmrn. um að vinna fyrir sig ákveðið verk og fá þar ákveðnar upplýsingar en það eru takmörk fyrir því hvað þær stofnanir geta gert sérstaklega ef það er umfangsmikil beiðni sem kemur frá þingmanni um athugun á ákveðnu máli. Síðan teldi ég að það væri mjög heppilegt fyrir Alþingi að hafa sína eigin hagdeild þar sem þingið gæti lagt fyrir hana sínar eigin forsendur sem það vildi að yrði unnið út frá.

Mig minnir að það hafi komið í þingmáli hugmynd um slíkt. Það er oft sem deilt er um það, við þekkjum það frá EES-samningnum, t.d. varðandi túlkun á stjórnarskránni. Þá er oft leitað til Lagastofnunar Háskólans. Mér finnst að það væri vel þess virði að skoða hvort Alþingi ætti ekki að hafa sitt eigið lagaráð.

Mér finnst það hafa komið fram í þessari umræðu, þó ekki séu allir nákvæmlega sammála um þessa tillögu og hvernig hún er útfærð, hjá öllum og líka meginforseta þingsins að það þyrfti að auka valdsvið þingnefnda og eftirlit með framkvæmdarvaldinu. Ég sýndi fram á það að í 20 eða 25 þingmálum hefur verið látið reyna á ákvæði 39. greinar stjórnarskrárinnar sem felur í sér að þar er heimild til þess að rannsaka sérstaklega ýmis atriði sem varða almannaheill. Þar er heimild til að krefjast skýrslu, munnlegrar eða skriflegrar, sem er miklu ákveðnara og beittara ákvæði heldur en nú er að finna í þingsköpum. En því miður hafa þær tillögur sem hafa verið bornar fram á grundvelli þessa ákvæðis ekki náð fram að ganga nema í undantekningartilfellum. Þess vegna tel ég brýnt að nefndirnar sjálfar geti haft þetta frumkvæði en þurfi ekki atbeina Alþingis til þess. Mér finnst sem betur fer að ýmsir þingmenn hafi tekið undir það. Mér finnst óþarfa viðkvæmni koma fram hjá mörgum sem hafa talað gegn því að þingnefndir, ef meiri hluti þeirra svo kýs, geti starfað fyrir opnum tjöldum. Mér finnst það styrkja lýðræðið og gera það virkara að hafa þennan möguleika opinn þó vissulega verði að fara með hann með þeim hætti að það sé í sérstökum málum sem því er beitt.

Ég held að það sé varla hægt að mæla því í mót þótt mér fyndist nú að hv. 2. þm. Vesturl. gerði það, að það hefur orðið töluverð breyting á störfum þingsins að því er varðar framsal á valdi. Það má vel vera að á því séu þær skýringar að lagasetningar séu orðnar flóknari, þær séu orðnar umfangsmeiri o.s. frv. En tilhneigingin er sú að þingið er í stærri og veigameiri málum farið að framselja vald til framkvæmdarvaldsins, sérstaklega að því er varðar reglugerðarheimildir til ráðherra sem eru oft útfærsluatriði á ákveðnum lagagreinum sem getur skipt mjög miklu hvernig útfærðar eru og framkvæmdar. Þingmenn vita oft á tíðum ekki hvernig slíkar reglugerðir líta út í stórum dráttum, hafa engan umsagnarrétt um þær, eða að ráðuneytið sendi það til umsagnar nefndarinnar áður en þær eru settar. Þetta finnst mér að þurfi að breytast. Það hefur verið gert í danska þinginu, að þingnefndir hafa slíkan umsagnarrétt að því er varðar stærri reglugerðir.

Ég fagna því sem mér fannst forseti þingsins taka undir og það var að þingmannamál eigi að hafa meiri vigt hér í þinginu, eigi að fá meiri efnislega umfjöllun í nefndum heldur en þau hafa gert. Ég tel að þingnefndum beri skylda til að afgreiða þessi mál en ekki salta þau endalaust ár eftir ár. Það mætti hugsa sér að störf þingmanna fengju meiri tíma og vigt í þingstörfunum, t.d. með því að það þyrfti ekki að mæla fyrir endurfluttu máli heldur færi það beint til þingnefndar og þingnefnd hefði ákveðin tíma, kannski tvö þing, til að afgreiða slík þingmál. Mér finnst satt að segja allt of mikið gert af því að vísa málum til ríkisstjórnar. Oft er þeim vísað til skoðunar og athugunar hjá ríkisstjórn og síðan er það undir hælinn lagt hvernig þessar þáltill. eru framkvæmdar. Þannig að á þessu finnst mér þurfa að taka.

Það hlýtur að vera hægt líka að finna einhverja leið, og ég veit að forsn. hefur haft viðleitni uppi í því efni, að afgreiða ekki mál í bunum, í stríðum straumum rétt fyrir jólin og rétt áður en þingi lýkur á vorin. Þá fyrst fá þingmannamál oft efnislega umfjöllun á lokadögum þingsins í þingnefndum, í fagnefndum, vegna mikils þrýstings frá þingmönnum. Það ætti að vera nægur tími til að afgreiða mál sem eru lögð fram oft í upphafi þings með öðrum hætti heldur en gert er. Mér finnst að forsn. ætti að taka upp hvernig það verður gert. Ég vil ítreka líka að ég tel og kannski spyr um það af því að hér er einn fulltrúinn í forsn., hvort vænta megi þess að t.d. í þeirri endurskoðun sem nú fer fram á þingskapalögunum, sem mér skilst að verði á næstu vikum lagt fram í þinginu, verði t.d. tekið á því að þingmenn geti í sumarhléi óskað eftir skýrslum frá ráðherrum í tilteknum málum sem eru kannski uppi á meðan þing er í sínu sumarhléi eða beint fyrirspurnum um tiltekin veigamikil atriði sem eru uppi á þeim tíma í þjóðfélaginu. Ég spyr hvort vænta megi þess að þetta verði inni í þessari endurskoðun. Er verið að skoða þetta atriði sérstaklega sem ég tel mjög mikilvægt þegar við erum að tala um eftirlitshlutverk löggjafarþingsins með framkvæmdarvaldinu?

Síðan fannst mér hv. 2. þm. Vesturl. bara afgreiða það sisvona í upphafi síns máls og endurtók það síðan í lokin að það væru ekki neinar líkur á þetta frv. sem hér er til umræðu yrði afgreitt. Þingnefnd á nú eftir að fjalla um málið og segja sitt álit. Ég held að álit nefndarinnar sé ofar áliti hv. þm. Sturlu Böðvarssonar. Þó hann með allri virðingu sitji í forsn., þá getur forsn. varla ráðið því hvaða mál eru afgreidd sem snerta þingsköpin. En ég held að það sé alla vega mikilvægt að jafnvel þótt forsn. fjalli um þetta tiltekna mál sem hér er til umræðu ásamt öðru sem þarf að breyta í þingsköpunum að a.m.k. allshn. segi sitt álit á þessu máli og koma því áliti til forsn.