Þingsköp Alþingis

Mánudaginn 28. október 1996, kl. 18:00:45 (545)

1996-10-28 18:00:45# 121. lþ. 11.9 fundur 21. mál: #A þingsköp Alþingis# (rannsóknarvald þingnefnda) frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[18:00]

Svavar Gestsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er bersýnilegt að mér hefur ekki tekist að útskýra þetta nægilega vel sem ég var að reyna áðan. Málið liggur sem sagt þannig að það hefur verið gert ráð fyrir því að fljótlega verði fjallað um þetta á vettvangi formanna þingflokkanna sem eru undir forustu forseta Alþingis satt best að segja. Þó að það sé skrýtið form, þá er það þannig að þetta gerist á því borði sem við eigum sameiginlegt þingflokkarnir með forseta Alþingis. Drög sem yrðu til á þessu borði mundu svo fara til þingflokkanna og svo verða flutt hér í þinginu. Ég slæ því þess vegna algerlega föstu að það muni ekkert frv. um breytingar á þingsköpum koma inn á borð þingmanna fyrr en þingflokkarnir hafa fjallað um þau í einstökum atriðum og þá geta menn auðvitað komið sínum sjónarmiðum á framfæri í gegnum þingflokkana og m.a. breytingartillögum sem þar eru uppi. Það er fullt af slíkum hugmyndum í öllum þingflokkum, m.a. mínum þingflokki.

Við höfum rætt um það hins vegar bæði hér og annars staðar að það kunni að verða erfitt að ná samkomulagi nema um kannski minni háttar breytingar á miðju kjörtímabili, en það sé samt sem áður skynsamlegt að gera ráð fyrir því að hluti breytinganna tæki þá e.t.v. gildi í lok kjörtímabilsins, í byrjun næsta kjörtímabils. Menn hafa sem sagt raðað þessu þannig upp að þær breytingar á þingsköpunum sem verið er að gera gætu tekið gildi í þrepum. Um þetta er búið að tala heilmikið að ég hélt í öllum þingflokkum, hæstv. forseti.