Öryggi raforkuvirkja

Þriðjudaginn 29. október 1996, kl. 13:37:54 (551)

1996-10-29 13:37:54# 121. lþ. 12.5 fundur 73. mál: #A öryggi raforkuvirkja# frv., iðnrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur

[13:37]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga, sem kemur í stað laga um Rafmagnseftirlit ríkisins, nr. 60/1979, sem falla úr gildi verði frv. þetta að lögum. Frv. er á þskj. 73 og er 73. mál þingsins.

Frumvarpið er flutt til að laga lagaákvæði um rafmagnsöryggismál að breyttum tímum og lögfesta tiltekin ákvæði um framkvæmd þeirra. Fyrst og fremst er hér um að ræða tvö atriði, annars vegar aðskilnað stjórnsýsluþáttar rafmagnsöryggismála frá framkvæmd eftirlits og hins vegar eflingu gæðastjórnunar og innra eftirlits þeirra sem rafmagnsöryggismál snerta, í þeim tilgangi að auka ábyrgð eigenda og umráðamanna svo að unnt sé að minnka eftirlit hins opinbera.

Í samræmi við frv. til laga um Löggildingarstofu, sem ég hef lagt fyrir yfirstandandi þing, er gert ráð fyrir að rafmagnsöryggismál falli undir nýja stofnun, Löggildingarstofu, er taki við hlutverki og verkefnum Rafmagnseftirlits ríkisins og Löggildingarstofunnar eftir sameiningu þeirra.

Frumvarpið byggir á vinnu nefndar sem ég skipaði 19. júní 1995 til að endurskoða lög um Rafmagnseftirlit ríkisins frá 1979.

Nauðsyn þess var brýn, einkum í ljósi þeirrar reynslu sem fengist hefur af framkvæmd rafmagnsöryggismála eftir gildistöku reglugerðar um raforkuvirki frá árinu 1993.

Niðurstaða nefndarinnar var að núverandi lögum um Rafmagnseftirlit ríkisins þyrfti að breyta til að unnt verði að gera framkvæmd rafmagnsöryggismála hér á landi markvissari og færa hana til nútímalegri hátta. Í því felst m.a. að yfirstjórn rafmagnsöryggismála verði efld og hún gerð eins óháð framkvæmd rafmagnseftirlits og unnt er. Mikilvægt er að aðskilja stjórnsýslu og framkvæmd eftirlits þannig að stjórnvaldið sé óháð þeim aðilum sem annast framkvæmdina, geti óháð fylgst með störfum þeirra og fellt hlutlausa úrskurði í þeim álitamálum sem upp kunna að koma. Gert er ráð fyrir að eftirlitið verði flutt frá ríkinu til sjálfstætt starfandi skoðunarstofa. Því fylgir mikil ábyrgð og þarf því að gera ítarlegar kröfur til þeirra sem falið verður slíkt öryggiseftirlit. Það verður gert með því að skoðunarstofur verða að uppfylla samræmd ákvæði Evrópustaðla um faggildingu sem byggist á ýmsum grundvallarmarkmiðum neytendaverndar. Hér er fylgt frumkvæði dómsmrn. sem reið á vaðið með kröfur um faggildingu með því að gera faggildingu að skilyrði fyrir leyfi til að stunda bifreiðaskoðun hér á landi.

Þær auknu kröfur sem gerðar eru til rafveitna og rafverktaka um innleiðingu gæðastjórnunar í starfsemi sína er í grundvallaratriðum þær sömu og almennt er beitt í atvinnulífinu við framleiðslu og þjónustustarfsemi. Í þessu felst m.a. að ábyrgð eigenda, umráðamanna eða sérstakra ábyrgðarmanna raforkuvirkja og neysluveitna á lögmætu ástandi þeirra er gert ótvíræð. Þeim ber að koma upp skilgreindu innra eftirlitskerfi til að tryggja öryggi raforkuvirkja sinna og fullnægja stjórnun á rekstri stöðva og veituvirkja.

Innra gæðaeftirlit fyrirtækja er talið árangursríkasta leiðin til að tryggja öryggi og til að bæta starfsemi yfirleitt. Þetta næst m.a. með því að eigendur og umráðamenn virkja og starfsmenn allir í tengslum við þau verði meðvitaðri um öryggismál og virkari þátttakendur í fyrirbyggjandi aðgerðum.

Tekið er upp skipulag þar sem unnið verður eftir skilgreindum verklagsreglum og ótvírætt verður hver ber ábyrgð á lágmarksöryggiskröfum og að þeim sé fullnægt og á hvern hátt að því er staðið. Með innra eftirlitskerfi hjá rafveitum og rafverktökum er unnt að breyta og draga úr ytra stjórnvaldseftirliti og um leið minnka kostnað þeirra sem eftirlitið beinist að. Sameining starfsemi Rafmagnseftirlits ríkisins og Löggildingarstofunnar stuðlar að því að gera ríkisreksturinn einfaldari en um leið skilvirkari. Stofnanir þessar fjalla báðar um viðskipta- og neytendamál á tæknilegum forsendum. Með tilkomu nýrrar stofnunar sem annast þessa tvo málaflokka næst umtalsverð hagræðing og beinn sparnaður án þess að nokkrum faglegum þáttum í starfsemi þeirra sé fórnað.

Það er ekki ætlun mín að fjalla á þessu stigi málsins um einstakar greinar frv. Þó vil ég lauslega koma inn á kostnaðarhlið málsins. Eitt af meginmarkmiðum frv. er að lækka kostnað rafveitna og annarra af ytra eftirliti. Ytra eftirlitið, þ.e. hið hefðbundna stjórnvaldseftirlit, er unnt að minnka frá því sem fyrri reglur gera ráð fyrir með því að fyrirtæki taki upp gæðastjórnun og innra eftirlit með starfsemi sinni. Meginávinningur þessa er þó sá að rafmagnsöryggi batnar, göllum fækkar og rekstraröryggi vex. Þessi breyting á rekstrarháttum er forsenda þess að unnt verði að minnka eftirlit stjórnvalda og er þar farið inn á sömu braut og notuð er við eftirlit með vottun gæðakerfa, þ.e. eftirlit sem byggist á úrtaksskoðunum. Við gildistöku er þeirri meginstefnu fylgt að hún er færð nær þeim sem þjónustunnar nýtur en nú er. Jafnframt er með þessum ákvæðum tryggt að fullur jöfnuður haldist milli einstakra landshluta hvað varðar greiðslu kostnaðar af skoðunum neysluveitna og raffanga. Til þess að þetta sé unnt er skilið á milli þess sem annars vegar má kalla kostnaðarhlutdeild í rekstri stofnunarinnar og hins vegar beins kostnaðar við skoðanir. Þannig greiða t.d. rafveitur ákveðið prósentugjald til reksturs Löggildingarstofu vegna reksturs hennar er tengist samkvæmt yfireftirliti en samkvæmt 1. tölul. 14. gr. er sett sem hámark 0,2% af virðisauka raforkusölu eða raforkuframleiðslu. Til viðbótar greiða rafveitur samkvæmt 2. tölul. 14. gr. fyrir skoðanir sérstaklega. Þetta fyrirkomulag er talið réttlætissjónarmið þar sem gjaldtakan endurspeglar þá þjónustu sem greiðandinn nýtur. Frá þessu er vikið varðandi skoðanir á nýjum og eldri neysluveitum.

Kostnaður vegna skoðana á nýjum neysluveitum fellur á eigendur þeirra aðeins einu sinni, þ.e. þegar veitan er tekin í notkun. Neysluveitur í rekstri eru aftur á móti skoðaðar á nokkurra ára fresti eftir stærð þeirra og áraun. Tekna vegna þessara skoðana verður aflað af virðisauka raforkusölu eða framleiðslu og kostnaður greiddur úr ríkissjóði af þeim tekjustofni. Eigendur neysluveitna, t.d. húseigendur, munu því ekki greiða fyrir skoðanir þeirra með beinum hætti. Með því að fara þessa leið kostnaðarjöfnunar er komist hjá því að þeir sem búa utan þéttbýlis þurfi að greiða hærra verð fyrir skoðanir en aðrir. Rétt er að geta þess að eftirlit með neysluveitum hefur fram til þessa verið á ábyrgð rafveitna sem hafa sinnt því með eigin mannskap og innheimt kostnað fyrir það. Við það að rafveitur eru leystar undan þessari ábyrgð vex kostnaður ríkisins af eftirliti með neysluveitum til samræmis. Kostnaður vegna þessa hefur ætíð verið borinn af eigendum neysluveitnanna og er gert ráð fyrir að svo verði áfram. Gjaldtaka samkvæmt 4. tölul. 14. gr. er til að standa straum af þessum skoðunum neysluveitna sem ríkið tekur nú við af rafveitunum en sú ráðstöfun er veigamesta breytingin á gjaldtöku sem frv. þetta hefur í för með sér.

Það er ósk mín að frv. þessu um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga verði að lokinni þessari umræðu vísað til iðnn.