Löggildingarstofa

Þriðjudaginn 29. október 1996, kl. 14:12:14 (562)

1996-10-29 14:12:14# 121. lþ. 12.6 fundur 74. mál: #A Löggildingarstofa# frv., viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur

[14:12]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst um það sem kom fram hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni varðandi starfsmenn Löggildingarstofunnar og Rafmagnseftirlits, þ.e. hvað orðalagið ,,að öðru jöfnu`` þýðir. Það þýðir einfaldlega að hlutverki þessarar nýju stofnunar, sameinaðrar stofnunar Löggildingarstofu og Rafmagnseftirlits ríkisins, verður örlítið breytt og svo framarlega sem þeir starfsmenn sem nú eru starfandi hjá báðum þessum stofnunum uppfylla þau skilyrði sem sett munu verða fyrir ráðningu í þessar stöður þá skulu þeir starfsmenn sitja fyrir hvað störf varðar. Þannig tel ég að við séum að reyna að ganga til móts við það að tryggja öllum þeim starfsmönnum sem núna eru starfandi við báðar þessar stofnanir starf til frambúðar.

Varðandi fyrirspurn hv. 10. þm. Reykv. þá fjölluðum við örlítið áðan í frv. um Rafmagnseftirlit ríkisins um rafverktakana. Það er gert ráð fyrir því að rafverktakar verði faggiltir þegar fram líða stundir og Löggildingarstofa sjái um þá faggildingu eins og gert er ráð fyrir í frv.

Um hitt atriðið er að segja að engin EES-ákvæði setja okkur þau skilyrði að við þurfum að sameina þessar stofnanir eða fara af stað með þennan eftirlitsiðnað sem kallaður er. Við erum að draga úr eftirlitsiðnaðinum að því leyti til. Við erum að færa eftirlitið meira inn í fyrirtækin og færa ábyrgð yfir á þá aðila sem fara með. En til þess að hægt sé að tryggja að eftirlit af þeirra hálfu sé í lagi, mun Löggildingarstofa sjá um faggildingu viðkomandi aðila og hefur eins og ég gat um í minni framsöguræðu áðan verið mjög til aðstoðar við faggildingu á mörgum sviðum er snerta m.a. ýmsa þætti er tengjast EES-samningnum.