Löggildingarstofa

Þriðjudaginn 29. október 1996, kl. 14:24:46 (568)

1996-10-29 14:24:46# 121. lþ. 12.6 fundur 74. mál: #A Löggildingarstofa# frv., viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur

[14:24]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. spurði um eftirlitshlutverk Bifreiðaskoðunar Íslands í þessu máli. Það eftirlit sem Bifreiðaskoðun hafði var boðið út ekki alls fyrir löngu. Nýr aðili hreppti það sem er Aðalskoðun hf.

Varðandi Landssamband ísl. rafverktaka, þá snýr það ekki beint að þessu frv. um Löggildingarstofu vegna þess að frv. um Löggildingarstofu snýr eingöngu að sameiningu Rafmagnseftirlits ríkisins og Löggildingarstofunnar. Frv. sem við fjölluðum um áðan fjallar hins vegar um rafmagnsöryggismál og hafa rafverktakar lagt fram skrifleg mótmæli við það frv.

Aftur á móti, eins og ég sagði við þá umræðu, var landsfulltrúi frá Landssambandi ísl. rafverktaka í þeirri nefnd og hann, sá fulltrúi, var sammála frv. eins og það lá fyrir þá.

Ég sagði líka frá því áðan við umræðuna að það kemur ekki á óvart nú þegar betur er að gáð að rafverktakar á Austurlandi og Vesturlandi séu að senda inn mótmæli við því fyrirkomulagi sem núna er í rafverktakamálunum og þessu frv. um rafmagnsöryggismálin. Þeir hafa lagaskyldu til þess að tilkynna til Rafmagnseftirlits ríkisins allar nýjar lagnir og að þeir hafi lagt í hús viðkomandi.

Af því að ég hef látið skoða sérstaklega alla rafverktaka á Austurlandi, en þeir voru fyrstir til að senda til ráðuneytisins mótmæli við þessu frv. eins og það lá fyrir við umræðuna, þá er það einn rafverktaki í eitt skipti á öllu Austurlandi sem hefur tilkynnt að hann hafi lagt raflögn í íbúðarhús. Það er alvarlegt og við getum ekki búið við það ástand lengur í rafmagnsöryggismálum að við látum reka á reiðanum í þessum efnum. Frv. styrkir að mínu viti mjög eftirlit með rafmagnsöryggismálum í landinu og treystir neytendavernd að því leyti til.