Jarðhitaréttindi

Þriðjudaginn 29. október 1996, kl. 14:59:33 (585)

1996-10-29 14:59:33# 121. lþ. 12.9 fundur 14. mál: #A jarðhitaréttindi# frv., 15. mál: #A orka fallvatna# frv., Flm. HG
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur

[14:59]

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir tveimur frv. til laga sem eru 14. og 15. mál þingsins. Það er frv. til laga um jarðhitaréttindi og frv. til laga um orku fallvatna og nýtingu hennar og breytingu á vatnalögum, nr. 15/1923.

Flutningsmenn beggja málanna eru þingmenn Alþb., níu talsins. Ég er fyrsti flutningsmaður þessara mála. Það hefur orðið samkomulag við hæstv. forseta að mæla fyrir þessum frv. báðum í sameiningu, eins og gert var á síðasta þingi til að greiða fyrir þingstörfum og einnig með tilliti til þess að frumvörpin eru að eðli til um hliðstætt efni, þ.e. að lögfesta þjóðareign á þeim náttúrauðlindum sem um er að ræða og fram koma í heiti frumvarpanna.

Það er ástæðulaust fyrir mig að eyða mjög löngu máli í að reyfa þessi mál þar sem þau hafa verið til umræðu í þinginu og meðferðar í þingnefndum í fjölmörg ár. Það eru líklega 12--13 ár síðan frv. þessi komu fyrst fram og þá sem stjfrv. vorið 1983 og höfðu verið undirbúin í tíð ríkisstjórna á þeim tíma. Síðan hafa þau verið flutt í þinginu, í neðri deild þingsins á meðan þingið starfaði í tveimur málstofum, margoft til þess að ýta á eftir um afgreiðslu þeirra og láta reyna á þingviljann í þessu efni. Efni frv. er --- og þá er rétt að taka fyrst fyrir frv. til laga um orku fallvatna og nýtingu hennar --- mjög skýrt og einfalt. Varðandi það frv., 15. mál, kemur fram í 1. gr. meginefni þess, svohljóðandi:

,,Orka fallvatna landsins er eign íslenska ríkisins sem eitt hefur heimild til nýtingar hennar, sbr. þó 2. gr.``

Í 2. gr. er að finna nokkrar undanþágur frá því ákvæði.

Þetta frv. um orku fallvatna er eins og fram hefur komið upphaflega flutt sem stjfrv. í ríkisstjórn sem ég átti sæti í á sínum tíma, 1983 og byggði á nál. um virkjunarrétt fallvatna, stjórnskipaðrar nefndar sem hafði samið frv. Var tekið tillit til álits nefndarinnar sem skilaði þó ekki sameiginlegu áliti því að einn nefndarmaður skilaði séráliti sem minni hluti þessarar nefndar og hefur það verið látið fylgja frv. æ síðan til þess að öllu sé til haga haldið varðandi undirbúning málsins.

Hitt frv. um jarðhitaréttindi, kveður á um í 1. gr. að:

,,Landareign hverri, sem háð er einkaeignarrétti, fylgir réttur til umráða og hagnýtingar jarðhita á og undir yfirborði hennar í allt að 100 metra dýpi.

Landeiganda er rétt að bora eftir og hagnýta sér jarðhita með þeim takmörkunum sem lög þessi tilgreina.``

Í 6. gr. frv. er síðan að finna ákvæði sem tekur til jarðhita sem liggur dýpra en 100 metra undir yfirborði, með svofelldum hætti:

,,Íslenska ríkið á allan rétt til jarðhita sem liggur dýpra en 100 metra undir yfirborði landareigna skv. 1. mgr. 1. gr.

Íslenska ríkið á allan rétt til jarðhita sem liggur utan landareigna skv. 1. mgr. 1. gr. ``

Með tilvitnun í þessar greinar frumvarpanna hef ég dregið fram kjarnann í efni þeirra. Síðan er að finna í öðrum greinum nánari útfærslu á ýmsum þáttum málsins, þar á meðal um heimildir þeirra sem hafa byrjað hagnýtingu eða byrja hana fyrir tiltekinn tíma. Í frv. um jarðhitaréttindi er miðað við ársbyrjun 1998 þannig að rúmur tími sé ætlaður til umþóttunar. Einnig er í því frv. að finna sérstök ákvæði um rétt sveitarfélaga til hagnýtingar. Þessi mál liggja því skýrt fyrir.

Í greinargerðum frumvarpanna er síðan að finna rökstuðning fyrir því að setja lög af þessum toga. Minnt er á forsögu málsins sem nær langt aftur á þessa öld. Í raun má rekja hana til umfjöllunar Alþingis um fossamálin svonefndu en síðan komu þessi mál við sögu árið 1945 af hálfu dr. Bjarna Benediktssonar og 1956 af hálfu prófessors Ólafs Jóhannessonar, beggja löglærðra manna og virtra þingskörunga og formanna flokka á Alþingi og í landinu og sem voru burðarmiklir hér á Alþingi. Af hálfu þessara aðila sem og fræðimanna í rétti eins og Ólafs Lárussonar hefur það verið talið réttmætt og eðlilegt að þrengja einkaeignarréttar eins og hér er gert ráð fyrir eða eins og þeir lögðu til á sínum tíma. Ég vil út af fyrir sig ekki ætla þeim að skrifa upp á í öllum atriðum það sem stendur í frv. þessum. Það væri kannski heldur langt seilst. En í aðalatriðum að það væri eðlilegt miðað við ákvæði íslenskrar stjórnarskrár að þrengja einkaeignarréttinn að þessu leyti og lýsa verðmæti af þeim toga sem hér um ræðir sem þjóðareign.

Þá vil ég einnig benda á, virðulegur forseti, að fyrir þinginu liggur frv. til stjórnarskipunarlaga sem Ragnar Arnalds er 1. flutningsmaður að og er um breytingu á stjórnarskrá varðandi náttúruauðlindir, m.a. það sem hér um ræðir. Þar er um endurflutning á máli að ræða. Gerir það ráð fyrir að stjórnarskránni verði breytt að þessu leyti. Ef samstaða væri um það ættu deilur um hvað sé heimilt innan ramma stjórnarskrár að vera úr sögunni, ef vilji er til að breyta stjórnarskránni eins og þar er gert ráð fyrir. Ég vil einnig vekja athygli á því, virðulegur forseti, í tengslum við þetta mál að Alþingi samþykkti vorið 1990 frv. sem ég var 1. flutningsmaður að um að lýsa auðlindir á og í hafsbotni þjóðareign, á öllu svæðinu innan auðlindalögsögu Íslands. Var þar um að ræða mjög viðamikla lögfestingu og í rauninni viðurkenningu á sjónarmiðum hliðstæðum þeim sem hér er verið að leggja til um að lýsa þjóðareign að lögum.

Ég ætla, virðulegur forseti, ekki að fara að vitna til atriða úr greinargerðum með frv. þessum svo oft sem þau hafa hér verið reifuð. En ég hlýt, virðulegur forseti, að nota tækifærið til að spyrja hæstv. iðnrh. hvað líði undirbúningi frumvarpa af hálfu ríkisstjórnarinnar um þau efni sem hæstv. ráðherra boðaði á síðasta þingi og komu þá oft til umræðu og eru raunar tíunduð í málaskrá ríkisstjórnarinnar, bæði undir forsrn. þar sem um er að ræða frv. til laga um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, afrétta og þjóðlendna og hins vegar frv. til laga um eignarrétt og nýtingu á auðlindum í jörðu sem iðnrn. boðar að flutt verði.

Ég gekk eftir því ítrekað á síðasta þingi og undir það tóku fleiri hv. alþm., að knýja á um svör af hálfu hæstv. iðnrh. hvenær þessi mál sem hann þá boðaði í fyrrahaust, fyrir einu ári síðan að kæmu inn á síðasta þingi, í raun fyrir áramót á síðasta þingi en ekkert varð af efndum að því leyti. Síðan var málið rætt og ítrekaðar fyrirspurnir síðla á vorþingi og hæstv. ráðherra viðurkenndi þá að ekki væru tök á því að leggja málið fyrir þingið. En í þingræðu um þessi efni síðasta vor sagði ráðherrann, ég held að það sé rétt, virðulegur forseti, að vitna til orða hans 14. maí 1996 hér í þinginu:

,,Ég vonast til þess að þurfa ekki að lenda í þessum sporum [þ.e. í sporum forvera sinna] og hægt verði að koma þessum frv. hér inn í þingið næsta haust þannig að maður standi ekki frammi fyrir því. En eins og ég segi, það hefur mikið verið útbúið af efni um þetta en það eru auðvitað mjög miklar pólitískar deilur um það hvernig eigi að líta á eignarréttinn, hvaða augum eigi að líta hann í þessu sambandi.``

Þarna boðar hæstv. ráðherra að frumvörpin komi næsta haust inn í þingið. Þann 29. maí eru mál þessi enn til umræðu hér af tilefni umræðu utan dagskrár og þá segir hæstv. iðnrh., með leyfi forseta:

,,Ég vænti þess að sú nefnd [þ.e. sú sem er að vinna að frv. sem hæstv. iðnrh. ætlaði að flytja] ljúki störfum í sumar og unnt verði að leggja fyrir Alþingi næsta haust frumvarp eða frumvörp þar sem skýrt verði kveðið á um eignarrétt og ráðstöfunarrétt yfir þessum auðlindum.``

Þetta eru orð núv. hæstv. iðnrh. Ég get minnt á það, virðulegur forseti, að fallið hafa svipuð orð frá forverum hæstv. ráðherra, margoft hér þegar þessi mál hafa verið til umræðu og eftir þeim hefur verið gengið. Það ætlar satt að segja að verða langur lopinn í sambandi við þessi efni af hálfu stjórnarráðsins og ábyrgðaraðila þessara mála þar þegar litið er yfir söguna frá 1985. Ég nefni það vegna þess að ég held að þá hafi verið sérstaklega eftir því gengið í tengslum við endurflutning á frumvörpum sem ég lagði inn í lok stjórnartímabils ríkisstjórnar Gunnars Thoroddsens 1983.

Ég vil líka minna á það, virðulegur forseti, að á síðasta þingi var lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri breytt með lögum nr. 46 þar sem verið var að aðlaga íslenska löggjöf að ákvæðum samningsins um Evrópskt efnahagssvæði. Þar segir, með leyfi forseta, og ég held að það sé rétt að halda eftirfarandi til haga:

,,Íslenskir ríkisborgarar og aðrir íslenskir aðilar mega einir eiga virkjunarréttindi vatnsfalla og jarðhita önnur en til heimilisnota. Sama á við um fyrirtæki sem stunda orkuvinnslu og orkudreifingu.`` En svo segir, virðulegur forseti: ,,Sama rétt hafa einstaklingar sem búsettir eru í öðru aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins og lögaðilar sem heimilisfastir eru í öðru EES-ríki. Heimilt skal að kveða svo á í fjárfestingarsamningum milli Íslands og ríkja utan Evrópska efnahagssvæðisins að einstaklingar sem þar eru búsettir eða lögaðilar sem þar eru heimilisfastir hafi einnig sama rétt, enda verði slíkir samningar lagðir fyrir Alþingi til staðfestingar með þingsályktun.

Erlendum aðila, sem öðlast eignarrétt og afnotarétt yfir fasteign samkvæmt ákvæðum laga um eignarrétt og afnotarétt fasteigna, er heimilt að nýta jarðhita til beinnar notkunar í atvinnustarfsemi sinni innan þeirra takmarkana sem fram koma í orkulögum.``

Þessi ákvæði varða beint rétt útlendinga samkvæmt núgildandi löggjöf um jarðhitann sérstaklega og orku fallvatna. Það er eðlilegt að líta til þessara ákvæða þegar við ræðum þessi efni. Fyrirvarinn sem samið var um þegar Íslendingar gerðust aðilar að Evrópsku efnahagssvæði féll úr gildi við síðustu áramót þannig að ákvæði samningsins samkvæmt tilvitnuðum lögum er nú í gildi með þeim fylgjum sem af því geta hlotist.

Ég minni á það, virðulegur forseti, að af hálfu þingmanna Alþfl. hafa komið fram í þinginu frv. sem eru af skyldum toga. Á síðasta þingi fluttu þingmenn Alþfl., með hv. þm. Sighvat Björgvinsson sem 1. flm., tvö frv.; 321. og 322. mál 120. löggjafarþings um eignarhald á auðlindum í jörðu og um virkjunarrétt fallvatna. Þó að ákvæði séu þar sett fram á nokkuð annan hátt en í þeim frv. sem ég mæli hér fyrir þá er þar svipuð hugsun á ferðinni. Hér er dæmi um mál sem samstaða er um má segja í aðalatriðum milli Alþfl. og Alþb. Það verður ekki sagt að þau séu svo mjög mörg stóru málin þar sem þessir flokkar slá á sömu strengi. En í þessum efnum hafa þeir verið samstiga og það er vel þó ekki hafi þeir haft erindi sem erfiði, t.d. hjá Alþfl. í ríkisstjórnum sem Alþfl. sat í frá 1991 að telja, með Sjálfstfl. En á því stjórnartímabili var mjög rammlega gengið frá málum í sjálfum stjórnarsáttmálanum um að sett yrði löggjöf, mig minnir á 115. þingi, um þessi efni sem Alþfl. nú í stjórnarandstöðu hefur flutt frv. um á síðasta þingi.

Virðulegur forseti. Hér er um að ræða ein stærstu mál sem hefur borið fyrir þingið nú og á mörgum undanförnum árum. Mál sem varða þjóðréttindi Íslendinga, yfirráð yfir því sem við trúum að séu auðlindir og höfum þegar reyndar hagnýtt í allríkum mæli til bættra lífskjara fyrir þjóðina og ætlum að nýta og vernda svo sem réttmætt er og samkomulag er um á hverjum tíma. Ég tel það vera blett á Alþingi Íslendinga að hafa ekki unnið sig fram úr þessum málum með lagasetningu fyrir löngu síðan og það beri að kappkosta að bæta þar úr við allra fyrsta tækifæri. Við flm. þessara frv. höfum jafnan tekið það fram að við séum reiðubúnir að líta á aðrar lausnir sem lúta að því að náð verði sömu markmiðum ef um það gæti tekist samstaða. Þrákelkni okkar við málflutning þennan er fólgin í því að stærð málsins er slík að það er ekki hægt annað en halda því á dagskrá þingsins á meðan ekki hefur verið úr bætt með löggjöf.

Ég geri að tillögu minni, virðulegur forseti, að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til hv. iðnn. þingsins.