Eigendaskýrsla um Landsvirkjun

Þriðjudaginn 29. október 1996, kl. 15:46:30 (595)

1996-10-29 15:46:30# 121. lþ. 12.95 fundur 60#B eigendaskýrsla um Landsvirkjun# (umræður utan dagskrár), HG
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur

[15:46]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Í þessu máli er mjög farið aftan að hlutunum, unnið öfugt við það sem ætti að gera og það er eðlilegt að það sé gagnrýnt hér á Alþingi. Er það svo að með hið stóra fyrirtæki Landsvirkjun eigi að ráðskast af þeim sem eru skráðir formlegir eignaraðilar án þess að stjórn fyrirtækisins og án þess að Alþingi komi að málinu? Er það eðlilegt að hæstv. ráðherra líti svo til sem handhafi ríkisvaldsins að stjórn fyrirtækisins komi þetta mál ekki við? Ég vil vísa til þess jafnframt að það mun koma til þess, og hefur verið boðað af hæstv. ráðherra, að gerðar verði tillögur um breytingu á orkulögum og lögum um Landsvirkjun o.s.frv. ef ráðherrann ætlar sér að framfylgja tilskipun Evrópusambandsins sem samþykkt var í júní sl. en ekki leita undanþágu frá henni eða hafna henni sem vissulega kæmi mjög til álita, að vísa henni frá. Og það er sú umfjöllun um hugsanlegar breytingar almennt á lögum um orkumál í landinu og um þetta stóra orkufyrirtæki sem á að vera undanfari þess að farið sé að fjalla um breytingar á fyrirtækinu með þeim hætti sem hér er verið að boða. Að því leyti er hér algjörlega farið aftan að því sem eðlilegt væri í þessu máli. Ég minni á það að Landsvirkjun hefur miklu víðtækari skyldur heldur en felast í formlegri eignaraðild. Þegar síðast voru sett lög um fyrirtækið 1983 og breytingar gerðar á samstarfssamning var leitast við að laða fram sem flesta til þátttöku um leið og með lögum var tryggð sú verðjöfnun sem gildandi lög um Landsvirkjun hafa að geyma.