Eigendaskýrsla um Landsvirkjun

Þriðjudaginn 29. október 1996, kl. 15:51:37 (597)

1996-10-29 15:51:37# 121. lþ. 12.95 fundur 60#B eigendaskýrsla um Landsvirkjun# (umræður utan dagskrár), SvG
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur

[15:51]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Ég læt mér í léttu rúmi liggja ónot sem komu frá hv. 2. þm. Reykn. í minn garð og ég vísa þeim á bug. (Gripið fram í.) Ég ætla ekki að taka þátt í þessum orðaleppum, mér finnst þeir ekki einu sinni fyndnir við þær aðstæður sem hér eru uppi núna.

Það sem ég hefði viljað nefna og mér finnst mikilvægt er það sem kom fram hjá hv. þm. Jóni Baldvini Hannibalssyni að í þessu máli á ekki að útiloka neina. En það er hæstv. ráðherra að gera. Það er verið að loka málið inni í þröngri nefnd og það er tækniræðið sem tekur völdin af þingræðinu eins og þetta virðist vera að þróast.

Í öðru lagi er það mikilvægt sem fram kom hjá hv. þm. Sturlu Böðvarssyni um þetta mál, að þurfi að stuðla að eins góðri sátt um orkumálin í heild og mögulegt er. Og það er líka mikilvægt sem fram kom hjá hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni að Landsvirkjun hefur miklu víðtækari skyldur en þjónustu við eignaraðilana á hverjum tíma. Skyldur Landsvirkjunar t.d. varðandi lífskjör og verðjöfnun á raforku eru gríðarlega miklar. Ég bið menn að tala ekki af gáleysi um þær skyldur því það gæti endað með því að þeim yrði fórnað og það gæti haft þær afleiðingar að lífskjör hér á landi yrðu enn þá misjafnari og verri víða en þau eru og ég trúi því ekki að nokkur þingmaður vilji stuðla að slíku. Og mér finnst það lélegt hjá hæstv. ráðherra þegar hann setur dæmið þannig upp að þingmenn Reykvíkinga megi ekki hafa skoðun á máli af þessu tagi. Þegar hann reynir að gera málflutning minn tortryggilegan með þeim ómerkilega og strákslega hætti sem hann gerði áðan. Það er málinu vissulega ekki til framdráttar.

Ég held hins vegar að það sé mikilvægt að málið hafi verið rætt hér og ég ætla að lokum að segja: Það er rangt hjá hæstv. ráðherra að það sé samkomulag í 20 manna nefndinni. Það er bullandi ósamkomulag. Sumar undirskriftanna eru ekki undirskriftir vegna þess að frá aðilunum komu ítarlegar (Forseti hringir.) greinargerðir þar sem mótmælt er veigamiklum þáttum í niðurstöðu nefndarinnar. Frá aðilum eins og Landsvirkjun, (Forseti hringir.) stjórnarandstöðuflokkunum og fleirum. Mér finnst það því ills viti að ráðherrann skuli ekki geta lesið opinber plögg skýrar en hann virðist gera og kom fram í hans máli. Ég tel engu að síður mikilvægt að málið (Forseti hringir.) hafi verið rætt hér en ég ætla að spara mér það að svara orðaleppum ráðherrans um málið þar til síðar.