Jarðhitaréttindi

Þriðjudaginn 29. október 1996, kl. 16:25:21 (604)

1996-10-29 16:25:21# 121. lþ. 12.9 fundur 14. mál: #A jarðhitaréttindi# frv., 15. mál: #A orka fallvatna# frv., JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur

[16:25]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Herra forseti. Að gefnu tilefni er rétt að taka það fram að í tíð fyrri ríkisstjórnar og iðnaðarráðherratíð tveggja þingmanna Alþfl., þeirra Jóns Sigurðssonar og Sighvats Björgvinssonar, var mikil vinna lögð í þessi mál og þá lágu fyrir frumvörp til laga tilbúin til þess að leggja fram á Alþingi, en það fékkst ekki samþykki samstarfsflokksins, Sjálfstfl., til þess að þau gætu orðið að stjórnarfrumvörpum og fengið eðlilega meðferð. Samráðherrar og forustumenn Sjálfstfl. voru í þessum málum eins og mörgum öðrum tregir til rökræðu um málið þannig að málið var ekki rætt svo ég minnist þess við ríkisstjórnarborð heldur í samtölum utan funda, en af því ályktaði ég að meðal forustumanna Sjálfstfl. væri ekki einhugur í málinu. Þrátt fyrir allt er það svo að jafnvel innan raða sjálfstæðismanna eru til þeir menn sem skilja að öfgakenndum einkaeignarréttarkenningum verður ekki haldið til streitu þegar um er að ræða nýtingu sameiginlegra auðlinda sem eru verðmætar vegna þjóðfélagsþróunar.

Á sínum tíma voru það fyrst og fremst fulltrúar landeigendavaldsins, sem er eitt mesta böl sem okkar þjóðfélag hefur búið við í þúsund ár, hv. þm. Páll Pétursson á Höllustöðum, sem var mestur andstæðingur þess fyrir hönd Framsfl. að þessi sjónarmið næðu fram að ganga. Ég minnist þess hins vegar í allri þeirri umræðu sem fram fór um EES-samninginn að hv. þm. Páll Pétursson, fulltrúi landeigendavaldsins, lét þau orð falla að hann væri tilbúinn til að endurskoða þessi sjónarmið sín í ljósi þess að gagnvart EES-samningnum væri kominn á almennur fjárfestingar- og stofnréttindaréttur án tillits til þjóðernis. Því er komið alveg sérstakt tilefni til þess í framhaldsumræðu um þessi mál að láta á það reyna hvort hv. þm., nú hæstv. félmrh., í nánum tengslum við Brusselvaldið er ekki tilbúinn til þess að standa við þau orð.