Jöfnun atkvæðisréttar

Miðvikudaginn 30. október 1996, kl. 13:48:11 (610)

1996-10-30 13:48:11# 121. lþ. 14.1 fundur 58. mál: #A jöfnun atkvæðisréttar# fsp. (til munnl.) frá forsrh., SvG
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur

[13:48]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir þá mikilvægu yfirlýsingu sem hann gaf hér. Hún er mikilvæg vegna þess að í stjórnarsáttmálanum er gert ráð fyrir því að stjórnarflokkarnir fjalli einir um þetta mál. Það er bersýnilegt að forsrh. er þeirrar skoðunar að skynsamlegra sé að byrja á því að kalla til fulltrúa allra þeirra flokka sem eiga menn í þessari virðulegu stofnun, a.m.k. til að byrja með, og vonandi verður ekki þörf á því að hafa það öðruvísi eins og hæstv. ráðherra orðaði það hér áðan. Það er úrslitaatriði að unnið verði að því að reyna að ná samkomulagi um þetta mál í heild, aukið jafnvægi bæði í þessum málum og öðrum í landi okkar. Það er meginmálið og lykillinn að lausn málsins sem hér er spurt um.