Jöfnun atkvæðisréttar

Miðvikudaginn 30. október 1996, kl. 13:49:07 (611)

1996-10-30 13:49:07# 121. lþ. 14.1 fundur 58. mál: #A jöfnun atkvæðisréttar# fsp. (til munnl.) frá forsrh., EKG
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur

[13:49]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Það mál sem er til umfjöllunar hefur oft verið rætt í þingsölum og því miður verður að segjast eins og er að þær umræður hafa oft verið ansi yfirborðskenndar. Umræðan sem hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson hóf var ekki sérstaklega yfirborðskennd. Hún var hins vegar full af fullyrðingum og órökstuddum sleggjudómum og ég verð að játa að ég held að umræðunni sé lítill greiði gerður með málflutningi eins og hv. þm. viðhafði áðan. Sannleikurinn er sá að endurskoðun kosningalöggjafarinnar er ákaflega vandasamt mál og þar þarf að hyggja að mjög mörgum hlutum. Menn skyldu t.d. hafa í huga að víða um lönd líta menn ekki endilega þannig á að eina markmið kosningalöggjafarinnar sé að tryggja jafnt vægi atkvæða. Það er líka gengið út frá því og litið til þess hvort kosningalöggjöfin tryggi að skýrt val sé hjá kjósendum milli ólíkra stjórnmálahugmynda. Einnig er litið til þess hvort kosningalöggjöfin sé líkleg til þess að skapa meirihlutaríkisstjórn og það er t.d. mjög ofarlega í sinni manna í Bretlandi varðandi kosningalöggjöfina og kosningafyrirkomulagið þar. Ég vara því mjög við því að menn tali um svona flókna og mikilvæga hluti eins og kosningalöggjöfina með þeim hætti sem hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson gerði hér áðan.