Jöfnun atkvæðisréttar

Miðvikudaginn 30. október 1996, kl. 13:51:54 (613)

1996-10-30 13:51:54# 121. lþ. 14.1 fundur 58. mál: #A jöfnun atkvæðisréttar# fsp. (til munnl.) frá forsrh., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur

[13:51]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég kem upp til að þakka hv. þm. Ólafi Erni Haraldssyni fyrir gustmikinn og hressilegan málflutning. Ég tek heils hugar undir hvert einasta orð í ræðu hans hér áðan. Það gleður mig að bæði hv. þm. Ólafur Örn og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir lýsa því yfir að innan Framsfl. sé að skapast vilji, a.m.k. hjá hópi yngri þingmanna, til þess að taka upp það gamla stefnumál sem Jón Baldvinsson, formaður Alþfl., flutti í þessum sölum fyrir mörgum áratugum. Það er alveg hárrétt sem hv. þm. Ólafur Örn segir. Sú kjördæmaskipan sem við búum við elur á kjördæmapoti og við vitum öll hvað af því leiðir. Besta leiðin til þess að sporna gegn því er að koma á því fyrirkomulagi sem annar þingmaður Framsfl., hv. þm. Siv Friðleifsdóttir, nefnir sérstaklega, að gera landið að einu kjördæmi. Hún mun á þessu þingi fá tækifæri til þess að sýna afstöðu sína til þess vegna þess að þingflokkur jafnaðarmanna mun flytja þingmál um það. Þá vænti ég þess að hv. þm. leiði þann hóp ungra þingmanna Framsfl. sem hún ræddi áðan um til fylgis við þingflokk jafnaðarmanna í þessu máli.