Jöfnun atkvæðisréttar

Miðvikudaginn 30. október 1996, kl. 13:54:31 (615)

1996-10-30 13:54:31# 121. lþ. 14.1 fundur 58. mál: #A jöfnun atkvæðisréttar# fsp. (til munnl.) frá forsrh., VS
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur

[13:54]

Valgerður Sverrisdóttir:

Hæstv. forseti. Ég held við leysum ekki þetta vandasama mál í þingsalnum í dag í því formi að hver þingmaður talar í eina mínútu. En ég lýsi ánægju með að sú vinna sem hafin var á síðasta kjörtímabili er hafin á nýjan leik og það tel ég vera mikið og gott mál. Við framsóknarmenn höfum ályktað um kosningalöggjöfina og við teljum að það eigi að breyta henni. Það eigi að jafna vægi atkvæða, það eigi að gera hana auðskiljanlegri og það eigi að auka persónuval. Þetta eru þeir þrír meginþættir sem við viljum að verði breytt. Af því að hér hefur verið talað um að Framsfl. hafi þráast við og verið á móti öllum breytingum þá er það ekki rétt. Við stóðum að sjálfsögðu að þeim breytingum sem gerðar voru 1983 á kosningalöggjöfinni sem gerir það að verkum að jafnt vægi er á bak við alla flokka. Ég vil að það komi fram og ég veit ekki hvort ég tala fyrir yngri eða eldri þingmenn Framsfl.