Jöfnun atkvæðisréttar

Miðvikudaginn 30. október 1996, kl. 13:57:00 (617)

1996-10-30 13:57:00# 121. lþ. 14.1 fundur 58. mál: #A jöfnun atkvæðisréttar# fsp. (til munnl.) frá forsrh., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur

[13:57]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir innlegg hans í umræðuna og get tekið undir flest það sem hann sagði. En sú spurning sem vaknar í mínum huga er sú hvernig beri að túlka þá yfirlýsingu forsrh., sem kom fram áðan, í ljósi þess að nefndin sem starfaði undir lok síðasta kjörtímabils komst ekki að neinni annarri niðurstöðu en þeirri að færa ,,flakkarann`` til Reykjavíkur og festa hann þar. Það náðist ekki samstaða um neitt annað. Því spyr ég hvort þess sé að vænta að hægt sé að ná samstöðu í þessu máli í ljósi þeirrar togstreitu sem m.a. einkennir þetta mál og ýmis önnur. Ég minni á það að þegar gerð var veruleg breyting á kjördæmaskipan landsins árið 1942 var það gert að vilja meiri hlutans gegn vilja Framsfl. Við eigum því dæmi um það í sögu okkar að meiri hlutinn hafi verið látinn ráða eins og ber að gera. En ég tek undir það að við skulum leita samstöðu en það er ekki hægt að bíða eftir því að einhver heildarsamstaða náist. Það verður að nást fram leiðrétting í málinu. Það er almannahagur sem á að ráða og vilji meiri hlutans.