Jöfnun atkvæðisréttar

Miðvikudaginn 30. október 1996, kl. 14:04:03 (622)

1996-10-30 14:04:03# 121. lþ. 14.1 fundur 58. mál: #A jöfnun atkvæðisréttar# fsp. (til munnl.) frá forsrh., forsrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur

[14:04]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Vegna orða hv. þm. Kristínar Ástgeirsdóttur vil ég fullyrða að í nefndarstarfinu á síðasta kjörtímabili var ekki fullreynt og reyndar ekkert komið fram um að það yrði verulegur ágreiningur milli manna. Það sem fundið var að þá og með réttu var að það starf fór of seint af stað og þess vegna gafst ekki tóm til þess, og þar mátti mér um kenna eins og menn vita, að ræða þau mál í botn. Það er því ekkert út í bláinn að það starf haldi áfram og menn taki til þess betri tíma og það hafa menn þegar hafið. Ég er ekki í vafa um að það megi finna sátt milli manna um þessi efni.

Ég vil líka fullyrða að þótt menn hafi auðvitað alltaf haft í huga að jafna rétt einstaklinganna til atkvæðagreiðslna í kosningum, þá voru hin stóru og hatrömmu átök flokka á milli í lengstan tíma ekki síst vegna þess að flokkum var mismunað á þeim tíma. Það er ekki vafi í mínum huga. Það var hin flokkspólitíska undirrót. Þessu hefur nú verið bægt á burt og ég held því fram að það þýði að ekki sé hægt með neinum rökum að gera einn flokk í þessum efnum tortryggilegri heldur en annan. Þeir geta allir komið að málinu með jöfnum hætti.

Í þriðja lagi vil ég nefna að það eru ýmsir þingmenn, a.m.k. í einum ákveðnum flokki sem bráðlega heldur sitt flokksþing, sem eru ákafir talsmenn þess að Íslendingar gangi í Evrópusambandið. Þessir þingmenn hafa ekki sagt að á vettvangi Evrópuþingsins eigi hver maður í Evrópuríkjunum að hafa áhrif eins atkvæðis. Þar vilja þeir mismunun af einhverjum ástæðum og fjöll og dalir Íslands fái þar að njóta sín.