Fræðsla fyrir dómara á sviði jafnréttismála og mannréttinda

Miðvikudaginn 30. október 1996, kl. 14:08:05 (624)

1996-10-30 14:08:05# 121. lþ. 14.2 fundur 37. mál: #A fræðsla fyrir dómara á sviði jafnréttismála og mannréttinda# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur

[14:08]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Á fundi sem ráðuneytið hélt sl. vor og hér hefur verið vitnað til með fulltrúum félmrn., Dómarafélagsins, Skrifstofu jafnréttismála og Mannréttindaskrifstofu Íslands var rætt um það hvort þörf væri fyrir og áhugi á að efla fræðslu fyrir dómara um samninginn um afnám misréttis gegn konum, svo og mannréttindamál að öðru leyti. Á fundinum kom fram mikill áhugi allra fundarmanna á því að stofna til endurmenntunarnámskeiða fyrir dómara varðandi mannréttindamál almennt og að fræðslu á þessu sviði væri þörf, en fram til þessa hefur slík fræðsla ekki farið fram fyrir dómara sérstaklega. Á slíku námskeiði skyldi kynntur samningur Sameinuðu þjóðanna um afnám misréttis gagnvart konum, svo og efni helstu annarra alþjóðamannréttindasamninga á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og Evrópuráðsins sem Ísland er aðili að. Að auki yrði þar veitt fræðsla um hin nýju mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar eftir umfangsmiklar breytingar sem voru gerðar á mannréttindakafla stjórnarskrárinnar með stjórnarskrárlögum nr. 97/1995.

Niðurstaða fundarins var að stefna bæri að námskeiðum fyrir dómara um þessi viðfangsefni. Var út frá því gengið að Dómarafélagið annaðist skipulagningu slíks námskeiðs í samráði við dómsmrn. Formaður Dómarafélagsins hefur upplýst mig um að áhugi Dómarafélagsins standi enn til þessa verkefnis. Það leggi mikla áherslu á að hafa frumkvæði í málinu og hafi þegar ákveðið að hefja undirbúning í samvinnu við Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands að slíku námskeiði sem verði í vetur, en tímasetning hefur enn ekki verið endanlega ákveðin.