Fræðsla fyrir dómara á sviði jafnréttismála og mannréttinda

Miðvikudaginn 30. október 1996, kl. 14:11:30 (626)

1996-10-30 14:11:30# 121. lþ. 14.2 fundur 37. mál: #A fræðsla fyrir dómara á sviði jafnréttismála og mannréttinda# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi BH
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur

[14:11]

Fyrirspyrjandi (Bryndís Hlöðversdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir svörin og vil endilega nota tækifærið og fagna því líka að það skuli vera fyrirætlanir um það að gera eitthvað í þessum málum. Ekki síst er ég ánægð að heyra að það skuli vera áhugi fyrir hendi hjá Dómarafélaginu, enda virðist vera mikil þörf á því að vel sé tekið á þessum málum, sérstaklega ef maður lítur til þeirra athugasemda sem nefndin gerði varðandi dómarana og dóma sem hér hafa fallið á þessu sviði.

Ég vil líka vekja athygli á því að það er verðugt verkefni fyrir ríkisstjórnina í heild að fara ofan í athugasemdirnar sem komu frá nefndinni og þau tilmæli sem þar koma fram og bregðast við þeim. Það eru ýmis önnur heldur en akkúrat þessi. Þar er t.d. lagt til að stjórnvöld geri ráðstafanir til að tryggja að grundvallaratriði sáttmálans séu felld í íslensk lög sem bendir til þess að nefndin telji það ekki enn vera svo að grundvallaratriði sáttmálans séu í íslenskum lögum. En ég fagna því að það skuli eiga að taka á þessum málum sem varða jafnréttisfræðslu fyrir dómara.