Afleiðingar afnáms línutvöföldunar

Miðvikudaginn 30. október 1996, kl. 14:21:53 (629)

1996-10-30 14:21:53# 121. lþ. 14.3 fundur 59. mál: #A afleiðingar afnáms línutvöföldunar# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., GE
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur

[14:21]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Ég þakka fyrir þær upplýsingar sem komu fram í svari hæstv. sjútvrh. Það er augljóst að þeim bátum sem stunda þessar veiðar með línu hefur fækkað verulega. Það eru aðallega smábátar sem hafa dottið út.

Þegar ákvörðun var tekin um afnám línutvöföldunar var það vegna þess að beitningabátar voru að sölsa undir sig línutvöföldunarkvótann og menn voru sammála um að við svo búið mætti ekki standa. En sá galli fylgir gjöf Njarðar í þessu tilviki að línubeitning í landi mun leggjast af. Ég hef spurst fyrir um það hjá öllum sveitarstjórnarmönnum þar sem línubeitning hefur verið stunduð frá því að tvöföldunaráhrifin voru sett á, hverjar horfur séu með landbeitningu í vetur. Svar allra er á sömu lund: Línubeitning mun nánast afleggjast. Líkur eru til þess að á milli 200--300 beitningarstörf leggist af nú í vetur. Ef svo fer sem horfir, þá er útlitið dapurlegt hjá þeim mönnum sem þessa vinnu hafa stundað. Það eru 120 manns á Vesturlandi, 180 manns á Suðurnesjum og Vestfjörðum. Því vil ég spyrja og ég fékk reyndar svar: Þetta verður endurskoðað, en er varla tímabært.