Afleiðingar afnáms línutvöföldunar

Miðvikudaginn 30. október 1996, kl. 14:31:32 (635)

1996-10-30 14:31:32# 121. lþ. 14.3 fundur 59. mál: #A afleiðingar afnáms línutvöföldunar# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., sjútvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur

[14:31]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þessar umræður. Hv. 4. þm. Norðurl. e. komst alveg réttilega að orði með að segja að línutvöföldunin fól í sér styrk til línuútgerðarinnar. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að hafa almennar reglur og á þeim grundvelli eigi að koma í ljós hvaða útgerð er hagkvæmust því að það er mikið keppikefli fyrir þjóðina og atvinnugreinina að við högum leikreglunum á þann veg að menn geti náð fiskinum með sem hagkvæmustum hætti.

Auðvitað er það ekki svo þó að breyting af þessu tagi hafi einhverja röskun í för með sér að við séum að veiða minni fisk. Það kemur sami fiskur að landi. Spurningin er bara: Náum við honum á hagkvæmari hátt? Þessar fyrstu tölur sem við höfum í höndunum benda til þess þar sem við erum að stórauka línuveiðarnar á fyrstu vikum þessa fiskveiðiárs með miklu færri bátum, helmingi færri bátum. Það bendir til þess að við erum að ná þeim árangri að gera þetta með aukinni hagkvæmni. Ég held að það hafi öllum verið ljóst að línutvöföldunin hafði áhrif á hátt leiguverð á aflaheimildum og það kom þess vegna ekki á óvart að í upphafi þessa fiskveiðiárs skyldi verð á leiguheimildum lækka. Það var reyndar eitt af markmiðunum með þessari aðgerð.

Það er líka skynsamlegast að haga fiskveiðistjórnuninni þannig að bæði þeir sem gera út og eru að vinna fiskinn geti ráðið því nokkuð sjálfir hvenær þeir sækja sjóinn og hvernig þeir skipuleggja sínar veiðar en stjórnvöld séu ekki að skammta þeim að ef þeir veiði svona þá megi þeir taka meira á þessum tíma en minna á öðrum tíma. Svona miðstýring af hálfu stjórnvalda er óæskileg fyrir atvinnugreinina. Þess vegna var það mikilvægt skref sem Alþingi steig á liðnu vori að afnema þessa línutvöföldun. En það er sjálfsagt mál að fylgjast með þessari þróun og sjá hvernig okkur tekst að ná þeim markmiðum sem sett voru þegar nægjanlegur tími er kominn til þess að raunveruleg reynsla fáist.