Skiparatsjár

Miðvikudaginn 30. október 1996, kl. 14:34:27 (636)

1996-10-30 14:34:27# 121. lþ. 14.5 fundur 65. mál: #A skiparatsjár# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi EKG
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur

[14:34]

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Fyrir um áratug eða þar um bil fóru fram miklar umræður um hugsanlega endurnýjun á ratsjárkerfi varnarliðsins og uppsetningu tveggja nýrra ratsjárstöðva á Norðvesturlandi og Norðausturlandi. Þessar umræður urðu á köflum mjög heitar og stríðar og spönnuðu nýtt svið og blönduðust m.a. inn í þær umræður sem þá fóru fram um varnar- og öryggismál vestrænna lýðræðisþjóða.

Í tengslum við þessa umræðu kom fram að í skýrslu sem varnarmáladeild utanrrn. eða sérstök ratsjárnefnd sem starfaði á vegum hennar, gaf út, var velt upp hugmynd um að settar yrðu upp sérstakar skiparatsjár, sem svo voru kallaðar, í tengslum við ratsjárstöðvarnar á Bolafjalli og Gunnólfsvíkurfjalli. Í þessari skýrslu sem ég nefndi var velt upp ýmsum kostum og flötum sem að þessu máli sneru og rætt um hvaða notagildi mætti hafa af þessum skiparatsjám. Niðurstaða þessarar skýrslu var sú að upplýsingar frá skiparatsjám á stöðvum norðvestanlands, þ.e. á Bolafjalli og norðaustanlands, þ.e. á Gunnólfsvíkurfjalli, mætti nota m.a á eftirfarandi hátt:

Til öryggiseftirlits með skipum af öllum gerðum. Til eftirlits með fiskveiðum. Til að fylgjast með veðri og jafnvel til að greina hafís. Síðan var farið yfir þetta nokkrum orðum og niðurstaða af vangaveltum höfunda skýrslunnar var, með leyfi virðulegs forseta:

,,Sérstökum skiparatsjám yrði komið fyrir á þeim stöðum sem rætt hefur verið um að reisa ratsjárstöðvarnar til eftirlits með flugumferð umhverfis landið. Þessar stöðvar gætu greint skip í allt að 56 sjómílna fjarlægð frá Stigahlíð, 34 sjómílna fjarlægð frá Hrollaugsstaðafjalli og 59 sjómílna fjarlægð frá Gunnólfsvíkurfjalli. Upplýsingar frá þessum ratsjám kæmu einkum að gagni við öryggiseftirlit með skipaumferð á þessum svæðum. Upplýsingar frá stöðvunum kæmu einnig að gagni við stjórn leitar- og björgunaraðgerða á lofti og legi. Er ljóst að nota má slíkar ratsjár til að fylgjast með úrkomu og jafnvel hafís á þeim svæðum sem ratsjáin nær til. Þessi atriði eru þó hátæknilegri útfærsla á búnaði skiptaeftirlitsratsjárinnar og þeim aðferðum sem beitt yrði við að vinna úr upplýsingum frá henni.``

Af þessu má sjá að margvísleg not gætu verið af skiparatsjá þessari og í máli hæstv. þáv. utanrrh., Jóns Baldvins Hannibalssonar, þegar ég tók þetta upp í fyrirspurn 25. október 1993, kom fram að uppsetning skiparatsjánna hefði á sínum tíma verið samþykkt af hermálayfirvöldum Atlantshafsbandalagsins sem hluti af endurnýjun ratsjárkerfisins á Íslandi og að sú ákvörðun standi enn, en hafi hins vegar dregist vegna þess að skort hafi fjármagn. Hæstv. ráðherra sagði síðan:

,,Nú eru líkur á því að úr þessum vanda rætist að nokkru á næstunni.`` Því hef ég leyft mér að spyrja hæstv. utanrrh.: ,,Er uppsetningu skiparatsjáa í tengslum við ratsjárstöðvarnar á Bolafjalli og Gunnólfsvíkurfjalli lokið?``