Læknavakt í Hafnarfirði

Miðvikudaginn 30. október 1996, kl. 15:08:22 (648)

1996-10-30 15:08:22# 121. lþ. 14.8 fundur 78. mál: #A læknavakt í Hafnarfirði# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur

[15:08]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Þær upplýsingar sem ég er með eru frá heilsugæslunni í Hafnarfirði, nákvæmlega fengnar þaðan. Það er læknir á vakt en hann er ekki á svokallaðri staðarvakt. (GÁS: Það má bara ekki vekja hann.) Hann er ekki á heilsugæslustöðinni en hann er á vakt heima hjá sér, (GÁS: Sofandi.) svarar kalli og á að sjálfsögðu, eins og allir læknar sem eru á vakt, að koma í útkall sé hann um það beðinn. Það er mergur málsins. Í dag eru sjö fastir heimilislæknar í Hafnarfirði. Það eru tveir afleysingalæknar núna þannig að þeir ættu þá að vera níu og einn barnalæknir á heilsugæslustöðinni. Við erum að tala um tíu lækna. Það hefur lengi verið um það krafa í Hafnarfirði að fjölga heimilislæknum vegna þess að mikið vaktaálag er á læknum heilsugæslustöðvarinnar og það er til athugunar. En ég endurtek, allar þær upplýsingar sem ég er hér með eru beint frá heilsugæslustöðinni og síðast í gær hafði ég samband við fulltrúa þaðan til að fara yfir hvort þessar upplýsingar væru ekki réttar.