Launajafnrétti

Miðvikudaginn 30. október 1996, kl. 15:18:34 (653)

1996-10-30 15:18:34# 121. lþ. 14.10 fundur 45. mál: #A launajafnrétti# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur

[15:18]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Í síðustu mgr. 6. gr. nýsamþykktra laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins segir svo, með leyfi forseta:

,,Konur og karlar hafa jafnan rétt til opinberra starfa og til sömu launa fyrir sambærileg störf.``

Nú hafa kannanir ítrekað sýnt að kynbundinn launamunur á Íslandi er á bilinu 10--16% og nægir þar að nefna kannanir Félagsvísindastofnunar fyrir Jafnréttisráð, fyrir Reykjavíkurborg og Samband bankamanna. Og könnun fjmrn. á launamun í stofnunum þess og ráðuneyti gaf svipaða niðurstöðu. Þessi launamunur brýtur í bága við íslensk jafnréttislög sem kveða á um að greiða skuli sömu laun fyrir jafnverðmæt störf. Hann er einnig brot á alþjóðasamþykktum sem Ísland hefur gerst aðili að, eins og ILO-samþykktinni nr. 100, um jöfn laun karla og kvenna fyrir jafnverðmæt störf.

Launamunur á Íslandi er það mikill að ráðherra jafnréttismála, Páll Pétursson, sá ástæðu til að geta þess á nýafstöðnu jafnréttisþingi að launamunur núna væri svipaður og fyrir 35 árum þegar lögin um launajöfnuð voru sett, en það var árið 1961. Fram til þess giltu iðulega sérstakir launataxtar fyrir karla og aðrir fyrir konur. Þessi mikli launamunur og hvernig tilraunir til að afnema hann höfðu tekist, allt lá það fyrir áður en nýju lögin um réttindi og skyldur voru samþykkt á hinu háa Alþingi. Í ljósi þess spyr ég fjmrh.: Hvaða áætlanir liggja fyrir um það hvernig afnema á launamun hjá hinu opinbera svo að ákvæði 6. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins um sömu laun fyrir sambærileg störf verði uppfyllt?