Launajafnrétti

Miðvikudaginn 30. október 1996, kl. 15:26:08 (655)

1996-10-30 15:26:08# 121. lþ. 14.10 fundur 45. mál: #A launajafnrétti# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur

[15:26]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég beið spennt eftir að heyra hvernig hæstv. fjmrh. ætlar að fara að því að tryggja í þeim samningum sem fram undan eru að kynbundinn launamunur minnki eða aukist a.m.k. ekki. Ég verð að láta í ljós ánægju með það að hann hefur í hyggju að benda á, þegar samið verður um svokölluð viðbótarlaun, að fólk eigi að hafa þetta í huga. En því miður get ég ekki séð af svari fjmrh. að það tryggi að ástandið muni skána í þessum efnum. Af þessu dreg ég þá ályktun að jafnréttisumræðan í Sjálfstfl. sýni að flokkurinn er ekki enn kominn á aðgerðastigið því það er enn þá vitnað í hina rómuðu viðhorfsbreytingu einstaklinga þrátt fyrir landsfundinn sem er nýlokið og helgaður var jafnréttismálum. Ég efast ekki um að ráðherrann vill gera eitthvað og ég vona að flokkur hans og ríkisstjórnin standi að baki því sem hann hyggst gera.