Launajafnrétti

Miðvikudaginn 30. október 1996, kl. 15:30:26 (658)

1996-10-30 15:30:26# 121. lþ. 14.10 fundur 45. mál: #A launajafnrétti# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur

[15:30]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Ég þakka þær umræður sem hafa orðið um þetta mál og tek undir flest það sem hefur komið fram. Ég verð þó að fráskilja hv. þm. Guðnýju Guðbjörnsdóttur og láta það koma fram að að sjálfsögðu er unnið í Sjálfstfl. að þessum málum og þannig að eftir hefur verið tekið. En hv. þm. nefndi viðbótarlaunin og ég vil gleðja hv. þm. með því að í Morgunblaðinu í dag er skýrt frá því að borgarstjórinn í Reykjavík, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, ætli sér að fylgja sömu starfsmannastefnu og fjmrh. og taka til viðbótarlauna. Sérstaklega er fjallað um þetta í Morgunblaðinu á bls. 8, reyndar ekki með viðtali við borgarstjóra heldur með viðtali við hv. þm. Ögmund Jónasson sem gagnrýnir okkur bæði og telur okkur fylgja sömu stefnunni og telur það reyndar af hinu illa. Ég tel hins vegar að ég sé í ágætum félagsskap með borgarstjóranum, fyrrverandi hv. þm., Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, og tel þetta vera rós í hnappagatið að Reykjavíkurborg skuli taka upp svipaða launastefnu og fjmrn. hvað þetta varðar.