Aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna

Miðvikudaginn 30. október 1996, kl. 15:41:41 (662)

1996-10-30 15:41:41# 121. lþ. 14.11 fundur 46. mál: #A aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur

[15:41]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Herra forseti. Þar sem þessi fyrirspurn og sú fyrrnefnda skarast eins og hér hefur komið fram vil ég byrja á því að láta í ljós þá ósk að fjmrh. fari í kapp við borgarstjórann um það hvort þeirra verði fyrri til að útrýma launamun kynjanna, hvort sem þau nota sömu launastefnu eða ekki. En grínlaust eru of mörg dæmi um að ekki sé farið eftir framkvæmdaáætlun um jafnrétti kynjanna, hvort heldur er á sviði launamála eða á öðrum sviðum. Það dæmi sem mér svíður sárast þessa dagana er að sjá nefndaskipun frá ráðuneytum og stofnunum. Í því sambandi vil ég nefna nýleg dæmi annars vegar um nefnd sem á að endurskoða málefni kirkjunnar en þar er engin kona og hins vegar þá dæmalausu ráðstöfun ríkisstjórnarinnar og hæstv. viðsk.- og iðnrh. að skipa nefnd um upplýsingaþjóðfélag framtíðarinnar þar sem í sitja 18 karlar og 2 konur. Ég skora á hæstv. fjmrh. að reyna að taka á þeirri ábyrgð sem fylgir því að samþykkja jafnréttislög og alþjóðasamninga og jafnréttismál og að hann og ríkisstjórnin taki þessi mál fastari tökum.