Reglur um innritun barna í grunnskóla

Miðvikudaginn 30. október 1996, kl. 15:53:02 (667)

1996-10-30 15:53:02# 121. lþ. 14.12 fundur 84. mál: #A reglur um innritun barna í grunnskóla# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur

[15:53]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Ég vil þakka ráðherra fyrir þau svör sem fram hafa komið. Ekki síst það að ráðuneytið bíður eftir áliti umboðsmanns barna varðandi það hvernig með skuli fara. Það kann að vera að ekki hafi þótt ástæða til þess fyrir menntamálayfirvöld að móta reglur varðandi þessi mál en mitt mat er að ástæða sé til þess. Menntmrn. hefur eftirlitsskyldu varðandi framkvæmd grunnskólalaga og að hluta til er það brot á grunnskólalögum ef foreldri ekki getur vegna deilna innritað barn í skóla svo sem ber. Einnig hitt að það er mjög erfitt að þurfa að setja annaðhvort sveitarstjórnir eða skólayfirvöld eða hvoru tveggja í þá aðstöðu að þessir aðilar þurfi að taka efnislega afstöðu til forsjármála sem eru sannarlega ekki á þeirra valdsviði. Reglur frá menntmrn. um það hvernig með skuli fara gætu einfaldað málin mjög fyrir þessa aðila og komið þeim í rauninni úr þeirri klemmu að þurfa að taka afstöðu til málsins sem, eins og ég sagði áðan, er og á að vera á valdsviði annarra.