Reglur um innritun barna í grunnskóla

Miðvikudaginn 30. október 1996, kl. 15:54:29 (668)

1996-10-30 15:54:29# 121. lþ. 14.12 fundur 84. mál: #A reglur um innritun barna í grunnskóla# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur

[15:54]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Í þessu efni má segja að menntmrh. sé í svipaðri stöðu og skólanefndir og skólastjórnendur því menntmrn. ber í þessu efni að fara eftir þeim almennu lögum sem gilda um forræði yfir börnum. Um það er sett sérstök löggjöf. Hafi það komið í ljós að ákvæðið um sameiginlegt forræði hafi leitt til vandræða af þessu tagi þá finnst mér að það eigi að líta fyrst á þá löggjöf og velta því fyrir sér hvort það eigi ekki á grundvelli hennar og með hliðsjón af þeim markmiðum sem menn setja sér þar að taka af allan vafa í þessu. Menntmrn. hefur heldur ekki þá sérfræðiþekkingu sem þarf til að fara inn í erfið forræðismál og ráðuneytið hefur ekki blandað sér í þau mál. Það er á forræði annarra yfirvalda í landinu að greiða úr slíkum vanda í viðkvæmum málum. Ég tel því að menntmrn. standi að þessu leyti í svipuðum sporum og yfirvöld í skólum á hverjum stað eða sveitarstjórnir því um þetta gilda sérstök lög. Á síðasta kjörtímabili samþykktum við lögin um sameiginlegt forræði og mér finnst að það eigi að skoða þann vanda sem af því kann að stafa í skólastarfinu í ljósi þeirrar löggjafar. Við tökum ekki á þeim málum í grunnskólalöggjöf. Menntmrn. býr ekki yfir þeirri sérþekkingu sem þarf til að úrskurða í forræðismálum.