Endurskoðun siglingalaga

Miðvikudaginn 30. október 1996, kl. 16:00:09 (670)

1996-10-30 16:00:09# 121. lþ. 14.14 fundur 88. mál: #A endurskoðun siglingalaga# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur

[16:00]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Nefndin var skipuð 29. nóv. 1994. Formaður hennar er Bjarni Þórðarson tryggingafræðingur en í henni eiga sæti fulltrúar sjómanna og útgerðarmanna, framkvæmdastjóri rannsóknarnefndar sjóslysa og fulltrúar frá tryggingafélögum og Siglingamálastofnun ríkisins.

Um störf nefndarinnar er það að segja að hún er enn að störfum og hefur haldið átta fundi, rætt ítarlega verkefni sitt sem er í meginatriðum tvíþætt: Annars vegar að ræða og hugsanlega gera tillögu að breytingum á reglum sem gilda um skaðabótaskyldu útgerðarmanna gagnvart sjómönnum er slasast við störf um borð í skipi eða í þágu útgerðar. Hins vegar að fjalla um fjárhæðir bóta og slysatryggingu þeirra sem kveðið er á um í siglingalögum.

Nefndin hefur aflað upplýsinga um skipan þessara mála í Noregi og Danmörku. Þá hefur nefndin látið gera samanburð á slysabótum ýmissa starfshópa hér á landi og þróun þeirra undanfarin ár. Einnig hefur nefndin skoðað heildargreiðslu til sjómanna sem lenda í alvarlegum slysum og til aðstandenda þeirra sem látast af slysförum frá almannatryggingum, lífeyrissjóðum og slysatryggingum og ábyrgðartryggingu.

Við umræður í nefndinni hefur komið fram mikill munur á skoðunum einstakra nefndarmanna og afstöðu þeirra til þess hvernig heppilegast sé að skipa þessum málum til framtíðar með lögum. Meðal annars hefur það sjónarmið komið fram hjá sumum nefndarmönnum að eðlilegra sé að fjalla um þessi mál í kjarasamningum og reyndar hafi það verið gert með samningum um hærri vátryggingarfjárhæðir en lögin kveða á um.

Það er mat formanns nefndarinnar að þörf sé frekari umræðu áður en nefndin tekur afstöðu til viðfangsefnisins og gerir ráðherra grein fyrir niðurstöðunum og er þeirra að vænta á öndverðu næsta ári.