Endurskoðun siglingalaga

Miðvikudaginn 30. október 1996, kl. 16:02:13 (671)

1996-10-30 16:02:13# 121. lþ. 14.14 fundur 88. mál: #A endurskoðun siglingalaga# fsp. (til munnl.) frá samgrh., KPál
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur

[16:02]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Ég vil þakka málshefjanda fyrir að vekja athygli á þessu máli sem að mínu viti er allsendis ólíðandi, að sjómenn þurfi nánast að sanna tilverurétt sinn um borð, á vinnustað sínum, þegar slys ber að höndum. Ég hef sjálfur slasast um borð í togara og munaði minnstu að ég hryggbrotnaði þegar ég hentist út í skipssíðuna eftir að brot hafði riðið yfir skipið meðan við vorum að taka inn trollið. Það hefði getað reynst mér erfitt að sanna það að ég hefði þurft að vera nákvæmlega á þessum stað í skipinu en ekki einhvers staðar annars staðar og þar af leiðandi hefði ég hugsanlega staðið uppi með það að missa bætur eða geta ekki sannað bótarétt minn þrátt fyrir það að ég væri ráðinn sem fullgildur sjómaður um borð í þessu skyni.

Ég treysti því að hæstv. samgrh. komi þessu máli í höfn sem allra fyrst enda er ekki ástæða til annars en taka undir orð hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar um að það sé sjálfsagt og eðlilegt að sjómenn séu kaskótryggðir um borð í sínum skipum.