Símatorg

Miðvikudaginn 30. október 1996, kl. 16:07:42 (674)

1996-10-30 16:07:42# 121. lþ. 14.15 fundur 95. mál: #A Símatorg# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur

[16:07]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir fyrirspurn til hæstv. samgrh. um Símatorgið, en í tengslum við Póst og síma er starfrækt svokallað Símatorg þar sem ýmsir einkaaðilar óháðir Pósti og síma bjóða almenningi alls kyns þjónustu allt frá því að koma á stefnumótum milli einstaklinga upp í að lesnar eru erótískar sögur eða klámsögur. Allt á kostnað þess sem skráður er fyrir símanum en Póstur og sími leggur til tæknina. Einkaaðilarnir bjóða þarna upp á þjónustu undir heitum eins og Amor, Bláa línan, Daðursögur, Rauða torgið, Símastefnumót o.s.frv.

Gjald fyrir þjónustuna er frá tæpum 40 kr. og upp í 67 kr. mínútan og aðgangur er opinn að þessari þjónustu þannig að hver sem kemst í síma getur hringt í Símatorgið og stofnað til ærinna útgjalda fyrir þann sem skráður er fyrir símanum. Ríkisfyrirtækið Póstur og sími leggur ekki aðeins til tæknina heldur sér um innheimtu fyrir einkafyrirtækin á Símatorginu um leið og innheimt er fyrir almenna símaþjónustu. Ef ekki er greitt á réttum tíma gengur Póstur og sími fram með harðar innheimtuaðgerðir gagnvart þeim sem lent hafa í vanskilum á miklum útgjöldum vegna þjónustu einkaaðilanna á Símatorginu, jafnvel harðari innheimtuaðgerðum heldur en Gjaldheimtan gagnvart þeim sem skulda skatta.

Þar sem ég held að menn geri sér ekki almennt grein fyrir hvaða þjónustu Póstur og sími er að rukka þarna fyrir hafði ég hugsað mér að spila smásýnishorn af því sem verið er að bjóða þarna og ríkisfyrirtækið Póstur og sími er að rukka fyrir en þar sem stjórn þingsins heimilar ekki að leikið sé af segulbandstæki hér get ég ekki orðið við því, enda er efni sem mér hefur borist af þessu Símatorgi þess eðlis að ég tel það ekki hæfa að leika það hér í þingsölum því að það getur ekki flokkast undir annað en grófasta klám. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. samgrh. hvort hann telji eðlilegt að ríkisfyrirtæki eins og Póstur og sími standi í innheimtu fyrir þjónustu einkafyrirtækja eins og þeirra sem mörg hver bjóða mjög vafasama þjónustu á Símatorginu.