Takmarkanir á aðgangi að Símatorgi

Miðvikudaginn 30. október 1996, kl. 16:15:55 (679)

1996-10-30 16:15:55# 121. lþ. 14.16 fundur 96. mál: #A takmarkanir á aðgangi að Símatorgi# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur

[16:15]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Eins og komið hefur fram er þetta önnur hlið á þessari þjónustu sem Símatorgið veitir og er fyrirspurn til hæstv. samgrh. um það hvort hann telji ekki ástæðu til að takmarka aðgang að þjónustu Símatorgsins.

Eins og kom fram í máli mínu áðan getur hver sem er sem kemst í síma notað sér þessa þjónustu á kostnað þess sem er skráður fyrir símanum. Ég þekki mörg tilvik þess að fólk hefur lent í miklum útgjöldum t.d. vegna barna og unglinga sem sækja í þetta, finnst spennandi að hlusta á þetta. Minni ég á frásögn einstæðrar móður í einu dagblaðanna nú á dögunum sem hafði lent í miklum skuldum við Póst og síma vegna fatlaðs sonar síns sem sótti mjög í þjónustu Símatorgsins og þurfti að búa við harðar innheimtuaðgerðir Pósts og síma.

Það er hægt að loka fyrir þjónustu Símatorgsins en það er oft komið í óefni þegar menn grípa til þess að láta loka fyrir þjónustuna og kominn hár reikningur. Þá er líka verið að loka fyrir aðra þjónustu sem fólk vill e.t.v. geta gengið að í gegnum símann. En eins og kom fram áðan er algengt að unglingar sæki í þessa þjónustu og einnig þeir sem haldnir eru ýmsum fíknum eins og spennufíkn. Handhafar síma eru ekki á varðbergi gagnvart misnotkun af þessu tagi og hafa fengið svimandi háa reikninga. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji ekki fulla ástæðu til að takmarka þessa þjónustu t.d. við handhafa greiðslukorta þannig að þeir geti þá greitt fyrir þetta með sínu greiðslukorti.

Sérstaklega finnst mér ástæða til þess að nefna þetta þegar litið er til barna og unglinga sem hafa þarna óheftan aðgang að efni sem oftar en ekki getur varla talist við hæfi barna eins og hæstv. ráðherra getur fengið að heyra ef hann hefur áhuga á því að hlusta á þá upptöku sem mér barst af því efni sem Símatorgið er að bjóða upp á. Við erum með kvikmyndaeftirlit til að passa upp á að börn sjái ekki efni sem ekki er talið vera við hæfi þeirra eða getur talist skaðlegt og ég hefði talið eðlilegt að þjónusta Símatorgsins væri takmörkuð við þá sem greiða fyrir hana.