Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 31. október 1996, kl. 12:04:51 (693)

1996-10-31 12:04:51# 121. lþ. 15.1 fundur 56#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur

[12:04]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil ekki standa hér frammi fyrir ákvörðun sem búið er að taka, um stækkun NATO. Þess vegna vil ég að þetta mál fáist rætt áður en Íslendingar taka endanlega afstöðu. Það er það sem ræður minni ósk um þetta efni. Ég tel reyndar að tímabært sé og sagði það í fyrra að málefni Atlantshafsbandalagsins verði tekin til umræðu. Það verður ekki hægt nema þá liggi fyrir þingmál eða verði boðað til sérstakrar umræðu um það. Mér finnst ekki nægilegt, eins og við höfum gert sl. tvö ár, að taka málefni NATO til umræðu í framhjáhlaupi eða undir hatti sem skýlir mörgum öðrum málum en þannig hefur það verið. Ég tek því undir með hv. þm. að utanrmn. ætti að hafa frumkvæði að því að færa þetta mál inn í þingið eftir að hafa rætt það í sínum hóp.

Ég vísa því hins vegar algerlega á bug, herra forseti, að ég hafi verið með skæting í garð þessa hv. þm. Ef hann á við þau ummæli mín að skoðanir hans minntu í vaxandi mæli á roskinn framsóknarmann í afskekktri sveit, þá dreg ég þau til baka. Hins vegar er staðreyndin sú að Sjálfstfl. hefur breytt staðsetningu sinni á hinu pólitíska landakorti og það var staðfest á landsfundinum sem haldinn var fyrir skömmu. Það er einfaldlega þannig, herra forseti, að flokkurinn er ekki lengur hið opna hús fyrir þá sem vilja efla frjálsa verslun við útlönd. Hann er ekki flokkur þeirra sem vilja ræða með opnum huga aðild Íslands að Evrópusambandinu. Það er búið að skrúfa fyrir þá sem vilja ræða þessi mál. Það er einfaldlega staðreynd. Ég minni bara á afdrif eins hv. félaga okkar, hv. þm. Vilhjálms Egilssonar hér í fyrra. Það var stungið upp í hann og það veit hv. þm. mætavel.

Hins vegar hvað varðar Eystrasaltslöndin, þá er auðvitað þakkarvert og gleðiefni að hv. þm. hefur skipt um skoðun. Hann telur það sér til tekna um leið og hann sproksetur aðra fyrir að hafa gert hið sama í öðrum efnum eins og t.d. um afstöðuna til Atlantshafsbandalagsins.