Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 31. október 1996, kl. 12:12:06 (697)

1996-10-31 12:12:06# 121. lþ. 15.1 fundur 56#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), KÁ
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur

[12:12]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég velti því fyrir mér hver sé tilgangur þessarar umræðu um utanríkismál. Er hann sá að fara yfir verkefnaskrá utanrrn. og skoða helstu viðfangsefni eða er þessi umræða tækifæri fyrir okkur þingmenn að ræða ástand heimsmála og það hvernig þau blasa við okkur?

Mér finnst sú ræða sem hæstv. utanrrh. flutti fyrr á þessum morgni vera býsna bundin íslenskum hagsmunum og viðfangsefnum sem liggja inni á borðum í utanrrn. Ég hefði kosið að gætt hefði meiri heimssýnar og skoðunar á heimsmálum almennt frekar en að tengja sig fast við þessi nánustu viðfangsefni, sem m.a. kemur fram í því hversu mjög sjónum er beint að samskiptum við Evrópu, sem auðvitað skipta máli. Ég er ekki að draga úr því. Eins eru hafréttarmál og fiskveiðimálin ofarlega á blaði hjá hæstv. ráðherra en mér finnst vera svo margt annað sem við þurfum að fá inn í þessa umræðu. Sú umræða sem hefur geisað undanfarinn klukkutíma er dæmi um hve mönnum hættir til að festa sig við þröngan sjóndeildarhring. Það mætti halda að stækkun NATO væri alþjóðamál númer eitt, tvö og þrjú. Auðvitað er það ákveðið viðfangsefni en það er sannarlega margt annað sem kemur okkur við og eigum að fjalla um í umræðum eins og þessari. Ef ég ætti að lýsa því hvað mér finnst eða hvað ég horfi einna mest á í umræðum um heimsmál er það ekki síst alþjóðavæðingin og afleiðingar hennar á hin ýmsu ríki. Það geisar mikil umræða um það bæði í Evrópu og Bandaríkjunum hversu langt eigi að ganga í alþjóðavæðingu, hvaða áhrif hún hafi haft á vinnumarkað og félagslegt umhverfi fólks. Þetta ræða bandarískir hagfræðingar m.a. af miklum móð.

Langsamlega stærsta vandamálið sem mannkynið stendur frammi fyrir að mati Sameinuðu þjóðanna er fólksfjölgunin í heiminum og fæðuskorturinn sem við stöndum frammi fyrir. Það er stór ráðstefna á vegum FAO fram undan í næsta mánuði þar sem m.a. á að fjalla um þau mál. Það er spurning sem við getum ekki með nokkru móti svarað hvernig við eigum að ráða við þessi gífurlegu vandamál. Það kemur fram í upplýsingum frá FAO að til þess að sinna fæðuþörfinni þurfi að margfalda framleiðsluna sem þýðir líka margföldun á notkun tilbúins áburðar og eiturefna. Það er eitthvað sem náttúra heimsins þolir ekki. Þetta er það stóra, stóra vandamál sem við stöndum frammi fyrir, ásamt vaxandi mengun og ofnýtingu auðlinda sem svo aftur tengist umræðunni um fiskstofnana og hvernig eigi að ná stjórn á nýtingu þeirra.

[12:15]

Ég sakna þess líka að hæstv. utanrrh. kom ekki inn á ýmis þau stóru pólitísku og erfiðu mál sem einmitt þessa dagana brenna á okkur. Það er ekki síst þróunin í Ísrael í samskiptum Ísraelsmanna og Palestínumanna sem því miður hefur tekið heldur sorglega stefnu. Eins vil ég nefna ástandið í Rússlandi sem er gríðarlegt áhyggjuefni og það hvað lýðræðið er þar vanburðugt og fyrri stjórnarhættir standa þar sterkt eins og kemur fram í styrk og stjórn hersins og því furðulega valdaspili sem virðist vera í gangi. Ég vil líka nefna forsetakosningarnar í Bandaríkjunum sem fram undan eru og úrslit þeirra mun að sjálfsögðu hafa mikil áhrif á heimsmál og þróun Bandaríkjanna. Ég nefni þar ekki síst að Clinton-stjórnin hefur tekið mjög myndarlega á málefnum kvenna í sinni stjórn og stjórnarfari. Ef repúblikanar næðu völdum í Hvíta húsinu efast ég ekki um að þar yrði mikið bakslag þannig að forsetakosningarnar munu að sjálfsögðu hafa mikil áhrif. Ég gæti nefnt líka ástandið í Afríku og afleiðingar styrjaldarinnar á Balkanskaga, það er að segja í Bosníu, sem eru hrikalegar og mikil vandamál þar við að glíma og því miður enn mikið um hryðjuverk og hörmungar sem komast nú ekki mikið í fjölmiðla.

Það er af nógu að taka til að ræða í þessu heimssamhengi en hæstv. utanrrh. kýs að beina mjög sjónum að Evrópu og samskiptum okkar Íslendinga við Evrópuþjóðirnar og öll þau samtök við erum aðilar að. Þar kem ég kannski að þeirri spurningu sem hefur leitað nokkuð á huga minn ekki síst eftir að við vorum að fjalla um fjárlögin í utanrmn. Það er spurningin: Hverju eigum við að sinna, Íslendingar? Hvað höfum við bolmagn til að gera í utanríkismálum? Það er svo greinilegt að verkefnunum fjölgar stöðugt. Það verða til ný og ný samtök sem fjalla um ýmiss konar mál sem snerta okkar hagsmuni og það er ákveðið áhyggjuefni hvað utanríkismálin eru að verða mikil að vöxtum. Þá er ég ekki að líta á það sem neikvætt heldur vil bara skoða spurninguna um það hvað við ráðum við í raun og veru. Hverju getum við sinnt? Spurningin er hvort utanríkisþjónustan er ekki stórlega undirmönnuð miðað við þau miklu verkefni sem sífellt eru að færast yfir á hennar herðar og er þetta ekki mál sem við þurfum að taka á? Er hægt að breyta verkaskiptingu milli ráðuneyta? Eða er hugsanlegt að við hreinlega hreinsum til og ákveðum að setja viss mál í forgang og að við getum hreinlega ekki sinnt þessu öllu saman? Þessar hugleiðingar hafa leitað á huga minn við að fara yfir þessi mál af því það er svo augljóst að ýmis mál snerta okkur meira en önnur. Mér finnst ræða hæstv. utanrrh. spegla það að hann vill koma mjög víða við og sinna mörgum málaflokkum. En hvað ráðum við í raun og veru við, þessi litla þjóð?

Mig langar aðeins að koma inn á Evrópumálin. Þar vil ég sérstaklega nefna að ég er þeirrar skoðunar að við Íslendingar og ekki síst hér á Alþingi þurfum að taka okkur mjög á í vinnubrögðum og fylgjast miklu betur með því sem er að gerast á vettvangi Evrópusambandsins. Við þurfum hreinlega að vinna okkar heimavinnu. Ég get nefnt þar sem dæmi fyrirhugað myntbandalag sem hæstv. utanrrh. hefur nú nefnt og varpað fram þeirri spurningu hvort við Íslendingar eigum að gerast aðilar að því. Þetta er auðvitað stórmál sem Alþingi Íslendinga þarf að skoða mjög rækilega. Ég vil varpa því fram hér hvort að það sé ekki löngu komin ástæða til þess annað hvort að setja að nýju sérnefnd í Evrópumálin hér innan þingsins eins og gert var á sínum tíma --- ég hygg að það hafi verið 1988 --- sem fór mjög vítt yfir sviðið og gaf á sínum tíma út nokkra bæklinga um Evrópumálin eða hvort að rétt væri að utanrmn. hreinlega færi í slíka vinnu. Ég tel mjög mikla þörf á því að við setjum okkur mjög rækilega inn í þessi mál og fylgjumst vel með og þá ekki síst hvað varðar ríkjaráðstefnuna. Við þurfum að fylgjast mjög grannt með því sem þar gerist því allt hefur þetta áhrif á samfélag okkar þó ég ítreki þá afstöðu mína að ég tel ekki að Ísland eigi að gerast aðili að Evrópusambandinu. Það er ekki bara vegna afstöðu Evrópusambandsins í sjávarútvegsmálum heldur horfi ég þar ekki síður á skipulag og vinnubrögð Evrópusambandsins og þá pólitík sem þar er rekin.

Hvað er það sem Íslendingar geta lagt af mörkum í heimsmálunum? Að mínum dómi er það fyrst og fremst það að við eigum að vera talsmenn mannréttinda hvar sem við getum. Í því samhengi vil ég varpa fram þeirri spurningu hvort viðskipti við þjóðir sem brjóta mannréttindi eigi alltaf rétt á sér. Nú hefur hæstv. utanrrh. farið víða og reyndar fyrri utanríkisráðherrar og við höfum verið að taka upp mjög vaxandi samskipti við t.d. þjóðir eins og Kínverja sem eru margbrotlegir við alla mannréttindasáttmála. Það vakti t.d. athygli mína að þegar hingað komu þingmenn frá Evrópuþinginu í júnímánuði í vor, þá voru þeir einmitt að spyrja okkur íslenska þingmenn út í það hvort ekki væri gagnrýnin umræða innan íslenska þingsins um þessi samskipti og sendiferðir til Kína. Það hefur töluvert verið rætt í öðrum löndum hversu langt menn eigi að ganga í viðskiptum við Kína. Og það er nú svo sérkennilegt að menn ræða þessi viðskipti og mannréttindabrot varðandi sum ríki en ekki önnur. Ég vil þar nefna t.d. Indónesíu þar sem líka eru framin hörmuleg mannréttindabrot, en ástandið þar er afar lítið til umræðu m.a. vegna þess að þar eru miklar erlendar fjárfestingar og miklir hagsmunir í húfi. Þarna þarf að finna milliveg, sem sagt að viðskiptin víki ekki til hliðar kröfum um að ríki virði mannréttindi og viðskiptin séu þar allsráðandi. Þetta finnst mér vera stórt mál og mikilvægt vegna þess að mannréttindin eiga því miður í vök að verjast í flestum ríkjum heims og þurfa svo sannarlega á stuðningi að halda og erum við Íslendingar einmitt í röð þeirra þjóða sem geta og eiga að beita sér í þágu mannréttinda.

Eitt atriði vil ég líka nefna sem reyndar tengist því sem ég nefndi áðan varðandi þátttöku Íslendinga í hinum fjölmörgu stofnunum og kannski svona tilraunir til þess að breyta einhverju þar. Það er þar sem hæstv. utanrrh. ræðir um ÖSE og lýsir verkefnum þeirra samtaka. Þar er einmitt komið inn á það að ÖSE er að fylgjast með lýðræðisþróun, sinnir kosningaeftirliti, mannréttindamálum, réttindum minnihlutahópa o.s.frv. Þetta eru nákvæmlega sömu verkefnin og Evrópuráðið er að sinna og Evrópusambandið. Það eru svo mörg alþjóðleg samtök að sinna sömu verkefnunum og spurningar vakna um þetta, þ.e. hvort ekki sé hægt að samræma og einfalda, ekki síst til þess að spara.

Tíma mínum er alveg að ljúka, hæstv. forseti. Mig langar í lokin að koma aðeins inn á öryggismálin og stækkun NATO. Ég heyrði það í fréttum núna fyrir örfáum dögum að til þess að Pólverjar geti uppfyllt þær kröfur sem NATO gerir þá þurfa þeir að fjórfalda útgjöld sín til hermála. Það kemur mér afar spánskt fyrir sjónir þegar þessum illa stöddu ríkjum er gert að margfalda hernaðarstyrk sinn til þess að geta orðið aðilar að NATO. Þarna held ég að menn verði að hugsa sig rækilega um og breyta stefnunni. Það er auðvitað mjög öfugsnúið ef þessi illa stöddu ríki þurfa, til þess að auka öryggi sitt, að stórauka útgjöld til hernaðarmála þegar önnur mál eru miklu miklu brýnni. Þarna held ég nú að þurfi að verða breyting á. En varðandi öryggismálin vil ég minna á að það er skoðun okkar kvennalistakvenna að í ljósi hinna miklu breytinga sem hafa orðið í heiminum þá eigum við að skilgreina öryggishagsmuni (Forseti hringir.) okkar og framtíð upp á nýtt, hæstv. forseti. Okkar öryggi hér á Íslandi felst ekki síst í því að við verndum umhverfið og að við eigum samstöðu með þeim þjóðum sem vilja ganga lengst í því að vernda umhverfið vegna þess að lífríkið í hafinu umhverfis Íslands er okkar lífsgrundvöllur og það er sú samstaða sem við eigum (Forseti hringir.) að leggja mesta áherslu á, hæstv. forseti.